„Selfoss á heima í efstu deild“

Gunnar Gunnarsson skrifaði í dag undir þriggja ára samning við handknattleiksdeild Umf. Selfoss um þjálfun meistaraflokks og 2. flokks karla. Gunnar segir mjög spennandi verkefni framundan.

Aðspurður hvers vegna Gunnar hafi slegið til að koma á Selfoss segir hann félagið spennandi og hann hafi fylgst með uppbyggingunni hjá því síðustu ár. „Hér hafa verið margir ungir efnilegir leikmenn og vel haldið utan um deildina. Umgjörðin hérna er mjög góð svo að þetta er mjög spennandi verkefni,“ sagði Gunnar í samtali við sunnlenska.is að lokinni undirrituninni.

„Ég þekki liðið ágætlega enda hef ég verið að spila gegn þeim síðustu tvö árin og þekki þá nokkra allvel. En síðan eru þarna yngri strákar sem hafa ekki verið að spila eins mikið og ég er mjög spenntur að sjá þá. Ég veit líka að það eru margir mjög efnilegir leikmenn á Selfossi sem hafa verið að standa sig vel í yngri flokkunum þannig að ég tel mig þekkja grunninn ágætlega.“

Selfyssingar hafa byggt upp á heimamönnum á síðustu árum og Gunnar segir að það verði stefnan áfram. „Já, ég sé það fyrir mér. Það er mikill efniviður hérna en það sem við ætlum að reyna að gera meira af núna er að stoppa það að menn séu að fara í önnur félög. Menn eiga að halda áfram hér á Selfossi og byggja upp liðið og Selfoss á auðvitað bara heima í efstu deild,“ segir Gunnar sem man vel eftir stemmningunni á Selfossi á blómaskeiði Mjaltavélarinnar.

„Þetta var einn alskemmtilegasti völlurinn að koma og spila á. Maður gekk inn í salinn einum og hálfum tíma fyrir leik og þá var stúkan orðin troðfull og stemmningin frábær á leikjum. Það er auðvitað svoleiðis sem við viljum sjá þetta.“

Gunnar segir ekki tímabært að svara því hvort liðið verði í toppbaráttunni á næsta keppnistímabili en liðið varð í 5. sæti deildarinnar í vetur. „Við höfum ekki sest niður og sett nein markmið. Við munum sjá hvernig leikmannahópurinn verður endanlegur en það er alveg klárt að liðið á að vera í efri hlutanum á deildinni. Þá getur allt gerst,“ sagði Gunnar að lokum.

Fyrri greinEnn einn sinubruninn í kvöld
Næsta greinNýr yfirlæknir sjúkrasviðs