Selfoss 2 hefur unnið fyrstu tvo leiki sína í Grill-66 deild karla í handbolta en í dag lagði liðið Handknattleiksbandalags Heimaeyjar í Set-höllinni á Selfossi, 35-30.
Selfoss 2 leiddi nánast allan leikinn í dag en staðan í hálfleik var 16-12. HBH byrjaði betur í seinni hálfleiknum og jafnaði 19-19 en þá tóku Selfyssingar við sér aftur, þeir höfðu frumkvæðið til leiksloka og unnu öruggan sigur.
Í fyrstu umferðinni vann Selfoss 2 nokkuð óvæntan sigur á Fjölni, 32-29, í Set-höllinni og ljóst að Selfyssingarnir ungu eru til alls vísir í vetur.
Hákon Garri Gestsson var markahæstur Selfyssinga í dag með 9 mörk, Dagur Rafn Gíslason skoraði 6, Ragnar Hilmarsson 5, Bjarni Valur Bjarnason, Skarphéðinn Steinn Sveinsson og Kristján E. Kristjánsson 4, Anton Breki Hjaltason 2 og Guðjón Óli Ósvaldsson 1. Ísak Kristinn Jónsson átti stórleik í marki Selfoss 2 og varði 20 skot.

