Seiglusigur hjá FSu

Lið FSu var góða stund að ná tökum á liði ÍG í 1. deild karla í körfubolta í kvöld en Selfyssingar unnu sigur, 84-68, eftir góðan lokasprett.

Fyrsti leikhlutinn var jafn en staðan að honum loknum var 17-17. Það sama var uppi á teningnum í 2. leikhluta en um hann miðjan náði ÍG sjö stiga forskoti sem FSu minnkaði niður í þrjú stig fyrir leikhlé, 34-37.

ÍG skoraði fimm fyrstu stigin í 3. leikhluta en FSu svaraði með 19-4 leikkafla og komst yfir, 53-46. Staðan var 59-56 þegar síðasti fjórðungurinn hófst. Þar tóku skólapiltar loksins öll völd á vellinum og byrjuðu á 18-5 áhlaupi. Staðan var þá 77-61 og FSu búið að gera út um leikinn þegar þrjár og hálf mínútur voru eftir. Lokatölur voru 84-68.

Orri Jónsson var stigahæstur hjá FSu með 23 stig en maður leiksins var þjálfarinn Kjartan Kjartansson með 22 stig, 8 stoðsendingar og fína skotnýtingu, nema þá helst fyrir utan teig. Steven Crawford skoraði 15 stig og Sæmundur Valdimarsson 10.

Með sigrinum fór FSu upp í 8. sæti með sex stig en þar fyrir neðan er Þór með fjögur stig og leik til góða gegn botnliði Ármanns.