Sebastian stal senunni

Selfyssingar unnu Míluna í spennandi nágrannaslag í 1. deild karla í handbolta á Selfossi í kvöld. Lokatölur 30-27.

Handboltinn var þó ekki í aðalhlutverki fyrstu mínútur leiksins. Sebastian Alexandersson, aðstoðarþjálfari Mílunnar og fyrrum leikmaður og þjálfari Selfyssinga, spilaði í kvöld sinn síðasta leik og jafnframt sinn 700. keppnisleik. Hann spilaði í markinu hjá Mílunni og óhætt að segja að hann hafi stolið senunni. Hann varði fyrstu þrjú skotin sem komu á markið og skoraði annað mark sinna manna úr vítakasti.

Mikið jafnræði var á með liðunum lengst af í fyrri hálfleik og var það ekki fyrr en á síðustu mínútunum sem Selfoss náði forystunni. Selfyssingar voru þremur mörkum yfir í leikhléi, 16-13, en það var mesti munurinn á liðunum í fyrri hálfleik.

Selfyssingar héldu svo forystunni í seinni hálfleik, en Mílan var þó aldrei langt undan. Selfoss voru nokkrum sinnum nálægt því að gera út um leikinn en alltaf náðu Mílu-menn að minnka muninn aftur. Svo fór að lokum að Mílan gat minnkað muninn í eitt mark þegar rúm hálf mínúta var eftir, en á þeim tímapunkti voru Selfyssingar einnig tveimur leikmönnum færri.

Atli Kristinsson, leikmaður Mílunnar, skaut hins vegar yfir markið úr vítakastinu og síðar náði Örn Þrastarson, skráður þjálfari Mílunnar og leikmaður Selfyssinga, að gera út um leikinn með marki á lokasekúndunum. Lokatölur leiksins 30-27 sem verður, þegar öllu er á botninn hvolt, að teljast sanngjörn úrslit.

Elvar Örn Jónsson skoraði mest fyrir Selfoss, 11 mörk, en Atli Kristinsson var markahæstur í liði Mílunnar með tíu mörk.

Sebastian Alexandersson stóð sig vel í sínum síðasta keppnisleik. Hann varði 18 skot og skoraði eitt mark. Hann þakkaði svo fyrir sig og gekk af velli þegar tæpar fimm mínútur voru eftir og var vel fagnað af áhorfendum í stúkunni. Táknrænt skildi hann keppnisskóna eftir á miðjum vellinum þegar hann gekk af velli.

Fyrri greinRausnarleg gjöf til Brunavarna Árnessýslu
Næsta greinFimm sagt upp hjá SASS