Sebastian framlengir – Árni Steinn ráðinn sjúkraþjálfari

Sebastian Popovic Alexandersson hefur framlengt þjálfarasamning sinn við 1. deildar lið ÍF Mílan í handbolta um eitt ár. Sebastian var ráðinn síðasta haust og náði góðum árangri með liðið á nýliðnu tímabili, en félagið endaði í 6. sæti með 13 stig.

Einnig spilaði Sebastian einn leik með liðinu, en það var kveðjuleikur hans. Sebastian hefur nú lagt skóna á hilluna eftir að hafa spilað 700 leiki í meistaraflokki.

Sebastian hefur mikla reynslu sem leikmaður og þjálfari enda verið að þjálfa meistaraflokkana á Selfossi síðan 2003 og einnig á hann að baki 31 landsleik fyrir Ísland. Ásamt því að þjálfa lið Mílan, þá er Sebastian þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Selfossi.

Mílan lét ekki þar við sitja, heldur var ráðinn til liðsins sjúkraþjálfari, Árni Steinn Steinþórsson. Árni Steinn þekkir til hjá liðinu en hann var liðinu til halds og trausts sem sjúkraþjálfari á fyrsta tímabili liðsins 2014/2015. Nú þar sem Árni er kominn heim úr atvinnumennsku í Danmörku og kemur til með að spila með Selfyssingum í vetur ásamt því að halda áfram námi sínu í sjúkraþjálfun.

Frá þessu er greint á heimasíðu ÍF Mílan.