Sautján gullverðlaun til HSK/Selfoss

Keppendur HSK/Selfoss náðu góðum árangri á Meistaramóti 15-22 ára í frjálsum íþróttum sem haldið var á Akureyri um helgina. Sunnlendingar komu heim með sautján gullverðlaun um hálsinn.

Í flokki 15 ára stúlkna sigraði Guðrún Heiða Bjarnadóttir í 100 m hlaupi á 12,71 sek og Sólveig Helga Guðjónsdóttir varð önnur á 12,98 sek. Þær urðu í 2. og 3. sæti í 200 m hlaupi, Guðrún hljóp á 27,13 sek og Sólveig á 27,17 sek. Sólveig sigraði síðan í 400 m hlaupi á 63,46 sek og Guðrún Heiða sigraði í þrístökki þar sem hún stökk 10,18 m en Elínborg Anna Jóhannsdóttir varð þriðja í þrístökkinu með stökk upp á 9,83 m. Elínborg varð einnig þriðja í hástökki þar sem hún stökk 149 sm.

Thelma Björk Einarsdóttir varð önnur í kúluvarpi, kastaði 11,24 m og Andrea Sól Marteinsdóttir varð þriðja með 10,87 m. Thelma varð svo þriðja í kringlukasti með 28,41 m og Andrea Sól varð þriðja í spjótkasti, kastaði 31 m slétta.

Að lokum sigraði sveit HSK/Selfoss í 4×100 m boðhlaupi 15 ára stúlkna á 52,63 sek.

Eva Lind Elíasdóttir stóð sig vel í flokki 16-17 ára stúlkna. Eva Lind sigraði í kúluvarpi, kastaði 10,53 m og varð önnur í 100 m grindahlaupi á tímanum 16,80 sek. Hún náði síðan í brons í kringlukasti með 25,16 m og sömuleiðis í spjótkasti þar sem hún kastaði 31,45 m.

Í flokki 16-17 ára pilta varð Guðmundur Kristinn Jónsson annar í spjótkasti þegar hann kastaði 51,35 m.

Dagur Fannar Magnússon sigraði í sleggjukasti 18-19 ára pilta, kastaði 47,64 m og í sama flokki vann Hreinn Heiðar Jóhannsson til þriggja verðlauna. Hreinn Heiðar varð annar í langstökki, stökk 6,43 m, þriðji í kringlukasti með 35,13 m og einnig þriðji í 110 m grindahlaupi á 16,65 sek.

Sveit HSK/Selfoss varð í 2. sæti í 4×100 m boðhlaupi 18-19 ára pilta á 50 sekúndum sléttum.

Í ungkvennaflokki 20-22 ára vann Fjóla Signý Hannesdóttir til sex gullverðlauna og einna silfurverðlauna. Fjóla sigraði í 400 m grindahlaupi á 64,53 sek, 100 m grindahlaupi á 15,29 sek, 200 m hlaupi á 26,70 sek, hástökki með 1,65 m, þrístökki með 11,22 m og langstökki með 5,28 m. Hún varð síðan í 2. sæti í 100 m hlaupi á 12,63 sekúndum.

Anna Pálsdóttir vann þrenn gullverðlaun í ungkvennaflokknum. Anna sigraði í kúluvarpi með 9,68 m, kringlukasti með 31,77 m og spjótkasti með 36,59 m. Anna varð önnur í sleggjukasti þar sem hún kastaði 26,87 m.

Sveit HSK/Selfoss sigraði bæði í 4×100 og 4×400 metra boðhlaupum á 53,46 sek og 4:26,21 mín.

Í ungkarlaflokki 20-22 ára varð Kristinn Þór Kristinsson annar í 800 m hlaupi á 2:15,27 mín.