Sáu ekki til sólar

Tryggvi Þórisson skoraði fimm mörk í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Karlalið Selfoss í handbolta er komið í sumarfrí eftir stórt tap gegn Val í þriðja leik liðanna í undanúrslitaeinvíginu á Íslandsmótinu. Valur sigraði 36-27 og einvígið því 3-0.

Selfyssingar voru skrefinu á undan framan af fyrri hálfleiknum en þegar tuttugu mínútur voru liðnar skildi heldur betur á milli. Valsmenn skildu Selfyssinga þá eftir í rykinu og breyttu stöðunni úr 9-10 í 19-12 og þannig stóðu leikar í hálfleik. Selfyssingar sáu ekki til sólar á þessum kafla og eftirleikurinn var auðveldur fyrir Val.

Seinni hálfleikurinn varð aldrei spennandi þar sem Valur hélt Selfyssingum í þægilegri fjarlægð allan tímann. Það sem helst gladdi augað var góð innkoma ungu mannanna í liði Selfoss sem fengu dýrmætar mínútur á móti besta liði landsins þessa dagana.

Alexander Már Egan og Tryggvi Þórisson voru markahæstir Selfyssinga með 5 mörk, Richard Sæþór Sigurðsson skoraði 4, Tryggvi Sigurberg Traustason, Árni Steinn Steinþórsson og Guðmundur Hólmar Helgason 3, Ragnar Jóhannsson 2 og þeir Hergeir Grímsson og Sigurður Snær Sigurjónsson skoruðu 1 mark hvor.

Selfyssingar fengu ekki mikla markvörslu í kvöld, enda var varnarleikurinn gloppóttur. Sölvi Ólafsson varði 4 skot og Vilius Rasimas varði 3/1.

Fyrri greinHelgi hættur í Framsóknarflokknum
Næsta greinLífæð fyrir heilbrigðisþjónustu úti á landsbyggðinni