Sáu ekki til sólar í lokaumferðinni

Guðmundur Hólmar skoraði níu mörk fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar náðu sér engan veginn á strik þegar þeir tóku á móti Val í lokaumferð Olísdeildar karla í handbolta í dag. Með sigri gátu Valsmenn tryggt sér deildarmeistaratitilinn og það gerðu þeir auðveldlega, 26-38.

Varnarleikur Selfyssinga var í algjöru lamasessi í fyrri hálfleik og Valur skoraði 24 mörk á fyrstu 30 mínútunum. Sóknin hjá þeim vínrauðu var heldur ekkert til að hrópa húrra fyrir en staðan var 13-24 í hálfleik.

Í seinni hálfleiknum héldu Selfyssingar í horfinu framan af og ungir leikmenn fengu að spreyta sig í fyrsta skipti á parketinu í efstu deild. Síðustu mínúturnar má segja að ungmennalið Selfoss hafi haldið upp merkjum liðsins en ekkert beit á Valsmönnum sem juku forskotið enn frekar þegar leið á leikinn.

Selfoss mun mæta FH í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins og fer fyrsti leikur liðanna fram í Kaplakrika 21. eða 22. apríl. Aðrir leikir í 8-liða úrslitum eru Valur-Fram, Haukar-KA og ÍBV-Stjarnan.

Guðmundur Hólmar Helgason var markahæstur Selfyssinga með 6/3 mörk, Tryggvi Þórisson skoraði 5, Guðjón Baldur Ómarsson 4, Hannes Höskuldsson 3, Sigurður Snær Sigurjónsson, Karolis Stropus og Haukur Páll Hallgrímsson skoruðu allir 2 mörk og þeir Ragnar Jóhannsson og Alexander Egan skoruðu eitt mark hvor.

Sölvi Ólafsson og Alexander Hrafnkelsson vörðu báðir 3 skot í marki Selfoss og Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 2.

Fyrri greinStokkseyri fékk skell í bikarnum
Næsta greinÞ-listinn býður fram í Bláskógabyggð