Sara og Díva sigruðu

Sara Ástþórsdóttir og Díva frá Álfhólum sigruðu í töltkeppni meistaradeildarinnar í hestaíþróttum sem fram fór í Ölfushöllinni í gærkvöldi.

Sara var í 3.-4. sæti eftir forkeppnina en sigraði með glæsilegri frammistöðu í úrslitum og fékk einkunnina 8,72.

John Kristinn Sigurjónsson og Tónn frá Melkoti urðu í öðru sæti með einkunnina 8,06 og í þriðja sæti varð Eyjólfur Þorsteinsson á Háfeta frá Úlfsstöðum með einkunnina 7,94.

Artemisia Bertus og Óskar frá Blesastöðum 1a voru efst að lokinni forkeppni. Artemisia vann tvö fyrstu mót meistaradeildarinnar en hafnaði nú í 4. sæti. Eyjólfur og Háeti unnu B-úrslit og náðu með því inn í A-úrslitin þar sem þeir urðu þriðju.

Artemisia leiðir enn einstaklingskeppnina með 30 stig. Í öðru sæti er Jakob S. Sigurðsson með 23 stig og með sigrinum í gærkvöldi skaust Sara upp í það þriðja með 22 stig.

Staðan í einstaklingskeppninni
1 Artemisia Bertus 30
2 Jakob Svavar Sigurðsson 23
3 Sara Ástþórsdóttir 22
4 Þorvaldur Árni Þorvaldsson 17
5 Sigurður Sigurðarson 11
5 Hulda Gústafsdóttir 11

Fyrri greinFrumsýning á Selfossi í kvöld
Næsta greinKaupa þrjár fjölnota menningarstúkur