Sara Jóhanna nýr formaður ungmennaráðs UMFÍ

Sara Jóhanna Geirsdóttir frá Hvolsvelli er nýr formaður ungmennaráðs Ungmennafélags Íslands. Hún tekur við af Höllu Margréti Jónsdóttur sem hefur tekið sæti í stjórn UMFÍ.

Sara var varaformaður ungmennaráðsins og hefur verið virk í starfi ráðsins. Hún mætti meðal annars á síðasta þing UMFÍ og var þar varamaður fyrir hönd HSK.

Í frétt á vef UMFÍ kemur fram að ungmennaráðið hafi fundað í síðustu viku, í jólaskapi, skipt með sér verkum og rætt verkefni komandi árs. Mikill hugur og tilhlökkun er í nefndarfólki, sérstaklega til að eiga samtal og vinna með forsvarsfólki íþróttahreyfingarinnar um það hvernig lyfta megi og tryggja rödd ungs fólks í starfi hreyfingarinnar.

Í Ungmennaráði UMFÍ sitja ungmenni á aldrinum 16-25 ára af öllu landinu. Það stendur m.a. fyrir ráðstefnunni Ungt fólk og lýðheilsa, sem haldin er á hverju ári.

Fyrri greinNetkosning um íþróttafólk Árborgar
Næsta greinBesti golfvöllur landsins annað árið í röð