Sanngjarn sigur Blika

Selfyssingar töpuðu sannfærandi gegn Breiðablik í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur á Selfossvelli voru 0-2.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill en Selfyssingar fengu fyrsta góða færið á 21. mínútu. Viðar Kjartansson fékk þá góðan bolta innfyrir vörnina en varnarmaður Blika komst fyrir skotið á síðustu stundu og bjargaði í horn.

Gestirnir pressuðu Selfyssinga ofarlega á vellinum og voru hættulegri þegar leið á fyrri hálfleik. Þeir komust síðan yfir á 34. mínútu með marki eftir klafs í vítateignum uppúr hornspyrnu. Staðan var 0-1 í hálfleik en Selfyssingar áttu síðasta orðið í fyrri hálfleik þegar markvörður Breiðabliks þurfti að hafa sig allan við að verja aukaspyrnu frá Jóni Daða Böðvarssyni.

Blikar voru sterkari í seinni hálfleik og Selfyssingar fengu ekki færi lengi vel. Á 67. mínútu komust þeir þó inn í vítateig Blika þar sem markvörður þeirra grænu braut á Babacar Sarr sem fór meiddur af velli í kjölfarið. Selfyssingar áttu augljóslega að fá vítaspyrnu en uppskáru ekkert annað en gult spjald á Stefán fyrirliða þegar hann upplýsti dómarann kurteislega um að hann hefði gert mistök.

Sex mínútum síðar gerðu Blikar út um leikinn þegar Duracak, markvörður Selfoss, hreinsaði illa frá markinu. Boltinn fór í bakið á Stefáni Ragnari og datt fyrir fætur Blika sem gat ekki annað en skorað. Þetta mark slökkti endanlega neistann í Selfossliðinu og síðasta korterið var skemmtilegra að dást að vel máluðum merkingum vallarins heldur en leik Selfyssinga.

Þegar þrjár mínútur voru eftir áttu Blikar stangarskot úr upplögðu færi eftir að Selfossvörnin hafði sofið á verðinum.

Sanngjarn sigur gestanna því staðreynd á Selfossi og liðin því jöfn að stigum í deildinni, bæði með sjö stig eftir sex umferðir.