Sannfærandi sigur í lokaumferðinni

Hildur Björk Gunnsteinsdóttir átti fínan leik í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar/Þór lauk keppnistímabilinu í 1. deild kvenna í körfubolta í kvöld með sannfærandi heimasigri á Aþenu/Leikni/UMFK í Frystikistunni í Hveragerði.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik, Hamar/Þór leiddi 25-18 eftir 1. leikhluta en Aþena minnkaði muninn í eitt stig í 2. leikhluta. Staðan í hálfleik var 40-38.

Í seinni hálfleiknum var Hamar/Þór hins vegar í bílstjórasætinu allan tímann. Munurinn jókst jafnt og þétt og niðurstaðan varð öruggur 85-61 sigur.

Hamar/Þór fékk mjög gott framlag í kvöld frá öllu byrjunarliðinu. Jenna Mastellone var stigahæst með 19 stig en Hildur Björk Gunnsteinsdóttir var framlagshæst með 18 stig og 7 fráköst.

Deildarmeistararnir fara ekki beint upp
Nú er framundan úrslitakeppni fjögurra efstu liðanna í 1. deildinni. Þrátt fyrir að vera deildarmeistarar fer Stjarnan ekki beint upp, heldur í úrslitakeppni með Þór Ak, Snæfelli og KR. Hamar/Þór er og verður í 5. sæti deildarinnar með 26 stig og hefur lokið keppni í vetur. Liðið blés á allar hrakspár sem gefnar voru út af körfuboltaspekingum í haust, vann 13 leiki og tapaði 11 og var nálægt því að komast í úrslitakeppnina.

Hamar/Þór-Aþena/Leiknir/UMFK 85-61 (25-18, 15-20, 29-12, 16-11)
Tölfræði Hamars/Þórs: Jenna Mastellone 19/5 fráköst, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir 18/7 fráköst, Yvette Adriaans 14/5 fráköst/4 varin skot, Emma Hrönn Hákonardóttir 13/6 fráköst, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 10, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir 7, Stefanía Ósk Ólafsdóttir 2, Elín Þórdís Pálsdóttir 2, Gígja Rut Gautadóttir 5 fráköst.

Fyrri greinForsetahjónin í opinbera heimsókn í Mýrdalshrepp
Næsta grein„Komum hingað aftur fljótlega“