Sannfærandi sigur hjá Hamri

Hamarsmenn unnu sannfærandi sigur á Vængjum Júpíters í 1. deild karla í körfubolta í kvöld þegar liðin mættust í Hveragerði.

Hvergerðingar tóku leikinn strax í sínar hendur og leiddu í hálfleik, 49-40. Hamar steig ekki feilspor í síðari hálfleik, jók forskotið jafnt og þétt og að lokum skildu 23 stig liðin að.

Halldór Gunnar Jónsson og Danero Thomas voru stigahæstir hjá Hamri með 20 stig en Thomas tók 19 fráköst að auki. Aron Freyr Eyjólfsson skoraði 15 stig og tók 11 fráköst, Stefán Halldórsson skoraði 13, Bragi Bjarnason 8, Bjartmar Halldórsson og Bjarni Rúnar Lárusson 6 og Sigurður Orri Hafþórsson og Emil Fannar Þorvaldsson skoruðu báðir 2 stig.

Hamarsmenn hafa þokast upp töfluna að undanförnu en allt stefnir í hörkukeppni um sæti í úrslitakeppni deildarinnar. Hamar hefur 10 stig í 6. sæti en í næstu sætum fyrir ofan eru FSu og Breiðablik, einnig með 10 stig en bæði lið eiga leik til góða á Hamar.

Fyrri greinSelfoss mætir ÍR í bikarnum
Næsta greinBúið að opna Heiðina