Sannfærandi sigur Eyjamanna

Karlalið Selfoss reið ekki feitum hesti frá ferðalagi sínu til Vestmannaeyja í dag. ÍBV sigraði 3-0 og situr nú á toppi Pepsi-deildarinnar.

Selfyssingar gerðu fimm breytingar á byrjunarliðinu frá tapleiknum gegn FH í síðustu umferð. Sigurður Eyberg Guðlaugsson, Ingólfur Þórarinsson, Sævar Þór Gíslason, Ingi Rafn Ingibergsson og Einar Ottó Antonsson komu allir inn í byrjunarliðið en Jón Steindór Sveinsson, Davíð Birgisson, Jón Guðbrandsson settust á bekkinn. Ingþór Jóhann Guðmundsson og Guðmundur Þórarinsson voru ekki í leikmannahópnum í kvöld.

Eyjamenn hófu leikinn með látum og eftir 40 sekúndur hafði Tryggvi Guðmundsson komið þeim yfir. Þórarinn Ingi Valdimarsson lék í gegnum sofandi vörn Selfyssinga og átti tvö skot að marki sem Jóhann Ólafur varði en Tryggvi tók síðara frákastið og lagði boltann snyrtilega í netið.

ÍBV var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og hefðu getað bætt við nokkrum mörkum ef ekki hefði verið fyrir frábæra frammistöðu Jóhanns í markinu. Ingi Rafn bjargaði auk þess einu sinni á línu.

Selfyssingar létu lítið að sér kveða í sókninni í fyrri hálfleik og áttu ekki skot að marki fyrr en eftir 27 mínútur. Eyjamenn áttu ellefu skot að marki í fyrri hálfleik en Selfyssingar aðeins þrjú.

Selfossliðið byrjaði ágætlega fyrsta korterið í síðari hálfleik en fengu ekki færi. Eyjamenn skoruðu annað mark sitt á 63. mínútu en þar var að verki Tonny Mawejje eftir klafs í teignum uppúr hornspyrnu.

Tryggvi Guðmundsson gerði síðan endanlega út um leikinn á 76. mínútu og þó að Selfyssingar hefðu átt nokkur skot að marki undir lok leiks náðu þeir ekki að skapa neinn usla í vörn ÍBV.

Fyrri greinTvö rauð og KFR tapaði
Næsta greinGötusmiðjunni lokað