Sannfærandi sigur Þórsara

Þór Þorlákshöfn vann öruggan sigur á Haukum í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld, 66-80 á útivelli.

Þórsarar tóku leikinn í sínar hendur strax í upphafi og leiddu 28-41 í hálfleik. Munurinn jókst enn frekar í 3. leikhluta en heimamenn klóruðu lítillega í bakkann í síðasta fjórðungnum.

Mike Cook Jr. skoraði 22 stig fyrir Þór í kvöld en maður leiksins var Ragnar Nathanaelsson með 20 stig auk þess sem hann tók 15 fráköst og varði 6 skot. Nemanja Sovic átti sömuleiðis mjög fínan leik með 18 stig og 16 fráköst. Emil Karel Einarsson skoraði 10 stig, Tómas Heiðar Tómasson 6 og Baldur Þór Ragnarsson 4.

Með sigrinum jafnaði Þór Hauka að stigum en liðin sitja í 5.-6. sæti deildarinnar með 18 stig þegar tvær umferðir eru eftir.