Samstillt átak skapar umhverfi til árangurs

Ný stjórn knattspyrnudeildar Selfoss tók við á aukaaðalfundi í síðustu viku. Ljósmynd/Selfoss

Á síðustu vikum hefur mikið gengið á hjá knattspyrnudeild Selfoss. Nýir þjálfarar hafa verið ráðnir fyrir bæði karla- og kvennalið félagsins auk þess sem ný stjórn hefur tekið til starfa þar sem Guðjón Bjarni Hálfdánarson er nýr formaður.

Guðjón Bjarni segir að formennskan leggist vel í sig en hann hefur síðustu þrjú ár verið gjaldkeri deildarinnar og formaður meistaraflokksráðs karla.

„Það er mikill heiður að taka við embætti formanns deildarinnar og vera í forsvari fyrir nýja stjórn sem er skipuð öflugum einstaklingum. Síðustu þrjú ár hafa verið gefandi en um leið krefjandi. Sú þekking sem ég aflað mér undanfarin ár hjálpar mér að takast á við komandi verkefni, þannig að ég er fullur tilhlökkunar. Undanfarin ár hef ég unnið með frábæru fólki, og þakka þeim fyrir fórnfúst starf í þágu deildarinnar. Það verður engin breyting á með nýrri stjórn, þetta er öflugt fólk sem er tilbúið að gefa hjarta og sál í verkefnið,“ segir Guðjón en með honum í stjórninni eru Kristinn Sölvi Sigurgeirsson, gjaldkeri, Helga Þórey Rúnarsdóttir, ritari og varaformaður og meðstjórnendurnir Arilíus Marteinsson og Þorsteinn Haukur Harðarson.

Guðjón Bjarni Hálfdánarson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sterkur grunnur af uppöldum leikmönnum
Tímabilið sumarið 2025 gekk upp og ofan hjá Selfossliðunum, kvennaliðið fór taplaust í gegnum Íslandsmótið og tryggði sér deildarmeistaratitilinn í 2. deild en karlaliðið átti erfiðara tímabil og féll úr 1. deildinni.

„Eitt að þeim verkefnum sem lagt var upp með undanfarin ár var að búa til sterkan grunn af uppöldum leikmönnum hjá Selfoss. Þegar horft er yfir liðið tímabil getum við verið stolt af þeim árangri sem þar náðist. Fjöldi uppalinna leikmanna voru í aðalhlutverkum í liðunum ásamt því að fjöldi leikmanna léku sína fyrstu leiki. Á komandi tímabili eru margir leikmenn sem eru reynslunni ríkari og tilbúnir í komandi tímabil,“ segir Guðjón.

Kvennaliðið mun leika í 1. deildinni sumarið 2026 en karlaliðið í 2. deild. Þetta er annað árið í röð þar sem annað hvort meistaraflokksliðið fellur niður um deild.

„Svona er bara fótboltinn; tár, bros og takkaskór. Þrátt allt þá er kominn sterkur grunnur af uppöldum leikmönnum í báðum liðum sem við getum byggt á til framtíðar. Það verður því skemmtilegt verkefni fyrir núverandi þjálfara að finna leiðir til að efla þá leikmenn ásamt því að finna réttar styrkingar inn í leikmannahópinn til að tefla fram öflugum liðum í Íslandsmótinu á komandi tímabili,“ segir Guðjón.

Magdalena og Guðmunda hefja deildarmeistarabikarinn á loft. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Nýju þjálfararnir setja strax mark sitt á liðin
Ný þjálfarateymi hafa tekið við báðum liðum, Óli Stefán Flóventsson tekur við karlaliðinu af Bjarna Jóhannssyni og Jonathan Glenn af kvennaliðinu frá Gunnari Borgþórssyni.

„Eftir samtöl við Bjarna og Gunnar var ljóst að þeir myndu ekki halda áfram með liðin. Þeir unnu virkilega flott starf fyrir deildina og voru ákveðnir í því að halda ekki áfram. Það var því ekki annað í stöðunni en að leita að nýjum þjálfurum fyrir báða meistaraflokka. Við teljum að við höfum fengið virkilega góða þjálfara til að leiða næstu tvö ár hjá meistaraflokkunum. Óli Stefán og Jonathan hafa báðir farið vel af stað og eru byrjaðir að setja setja sitt mark á liðin. Það verður því virkilega gaman að sjá hvernig liðin mæta til leiks í deildarbikarninn núna á nýja árinu,“ segir Guðjón.

Þurfum að tryggja sjálfbæran rekstur
Nýi formaðurinn segir að á komandi starfsári muni ný stjórn halda áfram að byggja ofan á það öfluga starf sem unnið hefur verið. Samhliða því sé mikilvægt að leggja áherslur á ýmsa hluti frekar en aðra.

„Við þurfum að tryggja að sjálfbæran rekstur deildarinnar og þar spilar ábyrg fjármálastjórn lykilhlutverk. Langtímahugsun og skýr forgangsröðun eru í fyrirrúmi. Traustur rekstrargrundvöllur er forsenda þess að hægt sé að byggja upp öflugt íþróttastarf til framtíðar, bæði í barna- og unglingastarfi sem og í meistaraflokkum deildarinnar,“ segir Guðjón og bætir við að einnig þurfi að leggja áherslu á uppbyggingu innviða.

„Þar á ég bæði við aðstöðu, skipulag og faglegt umhverfi. Sterkir innviðir skapa betri skilyrði fyrir þjálfara og leikmenn og styðja við markvissa þróun deildarinnar á öllum stigum. Við munum ráðast í breytingar á skipuriti knattspyrnudeildarinnar en markmiðið er að skýra ábyrgð, bæta verkferla og tryggja að stjórnun og daglegt starf deildarinnar sé í takt við vaxandi kröfur í nútíma knattspyrnu.“

Markaskorarinn Jón Daði Böðvarsson með boltann. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Skapa samkeppnishæft afreksumhverfi
Áfram verður byggt á uppöldum leikmönnum í meistaraflokkum en það sé hluti af stefnu félagsins að gefa efnilegum leikmönnum úr eigin röðum tækifæri til að láta ljós sitt skína á hæsta stigi.

„Samhliða því verður lögð áhersla á skýra leið frá yngri flokkum upp í meistaraflokka. Til að styðja við þessa þróun verður unnið markvisst að því að móta skýrt afreksstarf fyrir deildina. Þar verður horft til langtímastefnu, faglegra vinnubragða og góðs samstarfs milli flokka, með það að markmiði að skapa stöðugt og samkeppnishæft afreksumhverfi,“ segir Guðjón.

Frá Olísmótinu. Mynd úr safni. Ljósmynd/SportHero

Hvetur alla til að láta sig starfið varða
Af þessari upptalningu má sjá að áskoranirnar eru ýmsar en Guðjón segir að í þeim felist líka spennandi tækifæri.

„Með samstilltu átaki stjórnar, starfsmanna, þjálfara, leikmanna, styrktaraðila, foreldra og sjálfboðaliða er ég sannfærður um að knattspyrnudeild Selfoss geti haldið áfram að þróast á jákvæðan og metnaðarfullan hátt. Ég hlakka til samstarfsins og hvet alla sem láta knattspyrnuna á Selfossi sig varða að taka virkan þátt í því að móta deildina til framtíðar. Mig langar líka á þessum tímamótum að þakka öllum fyrir stuðninginn á liðnu ári og minni á að flugeldasala deildarinnar er í fullum gangi og hún er mikilvæg tekjulind fyrir deildina,“ segir Guðjón að lokum.

Fyrri greinSteinunn Fjóla skipuð skrifstofustjóri í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu
Næsta greinÁrni Þór tilnefndur sem Íþróttaeldhugi ársins