Samgönguráðherra ræsir KIA Gullhringinn

Ljósmynd/KIA Gullhringurinn

Hjólreiðahátíðin KIA Gullhringurinn fer fram laugardaginn 10. júlí næstkomandi á Selfossi en skipuleggjendur búast við um það bil 700 þátttakendum sem gerir hann að stærsta hjólreiðaviðburði ársins.

Sigurður Ingi mun ræsa afreksflokkinn. Ljósmynd/UMFÍ

Mikil eftirvænting er bæði hjá þátttakendum, bæjarbúum og skipuleggjendum en hátíðin verður ræst í nýjum miðbæ á Selfossi sem opnar fyrsta áfanga sinn fyrir gestum sömu helgi. Þá er ekki allt upp talið því Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mun ræsa afreks flokkinn en hann ætlar einnig að hjóla í fjölskyldu vegalengd hátíðarinnar.

Heiðursgestur hátíðarinnar er Arnar Helgi Lárusson sem nýlega hjólaði 400 km á sólarhring á handhjóli en hann er lamaður fyrir neðan brjóstkassa. Með ferðinni sinni vildi Arnar Helgi vekja athyli á hreyfingu hreyfihamlaðra og safna um leið peningum til að kaupa handhjól fyrir SEM, Samtök endurhæfðra mænuskaddaðra. Arnar tekur með sér hóp hreyfihamlaðs hjólreiðafólks en með þessu vilja SEM og skipuleggjendur hátíðarinnar leggja áherslu á það að hjólreiðar eru fyrir alla og að hreyfing er mikilvæg fyrir alla.

Arnar Helgi er heiðursgestur keppninnar. Ljósmynd/KIA Gullhringurinn

Fjölskyldu- og rafmagnshjólaflokkar
KIA Gullhringurinn býður upp á fjölbreyttar vegalengdir sem gerir hátíðina aðgengilega fyrir fleiri þátttakendur. Hægt er að velja um sex mismunandi flokka sem eru frá 12 km og uppí 90 km. Boðið er upp á flokka með enga tímatöku eða svokallað samhjól og þá eru einnig flokkar sem eru opnir fyrir rafmagnshjólum en algjör sprenging hefur orðið í sölu á þeim. Votmúlahringurinn sem er Selfossbúum af góðu kunnur er stysta leiðin en hún er í minningum margra fyrsta „stóra” hjólreiðaferðin í æsku þeirra.

Smelltu hér til þess að skrá þig í KIA Gullhringinn

Fyrri greinSurf- og strandarhátíð í Þorlákshöfn á laugardaginn
Næsta greinÁst á landbúnaði