Samþykkt að leggja niður félagið

Aðalfundur Umf. Vöku var haldinn í Þjórsárveri mánudagskvöldið 18. janúar. Átján félagar voru mættir á þennan tímamótafund en á fundinum var borin fram tillaga þess efnis að félagið yrði lagt niður og eignir þess færðar til Umf. Þjótanda.

Góðar umræður sköpuðust um tillöguna en allir voru sammála um það að verið væri að stíga skref í rétta átt með stofnun Umf. Þjótanda og að Ungmennafélaginu Vöku væri mestur sómi sýndur með því að leggja það niður.

Í fundarhléi var blásið til keppni í langstökki án atrennu þar sem félögum gafst tækifæri á því að gera síðustu atlögu að Vökumetum í greininni en enginn hafði erindi sem erfiði.

Eftir að veitingunum hafði verið gerð góð skil var verðlaunaafhending og þar bar hæðst að Ingunn Harpa Bjarkadóttir var kjörin íþróttamaður ársins 2015 og Hallfríður Ósk Aðalsteinsdóttir, gjaldkeri félagsins, hlaut félagsmálabikarinn fyrir góð störf í þágu félagsins þau 11 ár sem hún sat í embætti.

Tillagan um að leggja félagið niður var því næst samþykkt samhljóða og skömmu síðar var síðasta fundi Ungmennafélagsins Vöku í Villingaholtshreppi slitið eftir 80 ára starf.

Nýja félagið, Umf. Þjótandi, hefur látið útbúa merki félagsins en það teiknaði ritari félagsins, Magnús St. Magnússon í Hallanda, og er það unnið að hluta upp úr hugmyndum nemenda í Flóaskóla. Hugmyndin að baki merkisins er að koma í myndrænt form kraftinum og vindinum sem felst í nafninu en jafnframt að minnast á þau þrjú félög sem sameinuðust undir merkjum Þjótanda.

Fyrri greinLilja Rafney: Áfram er dregið úr þjónustu á landsbyggðinni!
Næsta greinAlvarlegt köfunarslys í Silfru