Samþykkt að vinna áfram að stofnun nýs ungmennafélags

Aðalfundur Umf. Vöku var haldinn í Þjórsárveri þann 4. janúar. Glímukonan Guðrún Inga Helgadóttir var útnefnd íþróttamaður ársins hjá félaginu.

Stjórn félagsins var öll endurkjörin og er hún þannig skipuð að Guðmunda Ólafsdóttir er formaður, Hallfríður Ósk Aðalsteinsdóttir gjaldkeri og Erla Björg Aðalsteinsdóttir ritari.

Afhent voru verðlaun fyrir ýmis afrek síðasta árs. Arnar Einarsson fékk verðlaun fyrir bestu afrek samkvæmt alþjóðastigatöflum unglinga og fullorðinna fyrir að hlaupa 100 m hlaup á 11,2 sek.

Starfsíþróttabikar Vöku fékk Kolbrún Júlíusdóttir fyrir afrek sín í jurta-og fuglagreiningu á árinu.

Guðrún Inga Helgadóttir var kjörin íþróttamaður ársins fyrir afrek sín í glímu. Hún keppti í fjölmörgum mótum á árinu með góðum árangri. Hún var valin í landslið Íslands í glímu og keppti á tveimur mótum erlendis og varð m.a. skoskur meistari í Backhold í -52kg flokki á Hálandaleikunum í Skotlandi.

Félagsmálabikar Umf. Vöku fékk Ágúst Valgarð Ólafsson fyrir starf sitt í þágu skákíþróttarinnar í Flóahreppi sem hann af eigin frumkvæði kom af stað og hefur haldið utan um síðan í nafni ungmennafélaganna.

Fjallað var um framtíð félagsins á fundinum sem samþykkti tillögu þess efnis að áfram verði unnið að stofnun nýs ungmennafélags í Flóahreppi á grunni gömlu félaganna og að stofnuð verði sex manna nefnd sem vinni áfram að verkefninu.

Undir liðnum önnur mál var meðal annars fjallað um áframhaldandi skákstarf, ljósmyndamaraþon, leiklist og önnur verkefni sem framundan eru hjá félaginu.

Fyrri greinFjöldi fyrirtækja studdi við jólaball Lions
Næsta greinBúist við blindhríð á Hellisheiði