Saga kvennaknattspyrnunnar á Selfossi – II

Þá heldur umfjöllunin um meistaraflokk kvenna áfram. Flokkurinn var endurvakinn að nýju árið 2009, eftir að hafa legið í dvala frá 2000.

Á þessum tíma var að koma upp mikið af efnilegum stelpum úr yngri flokka starfinu og því nauðsynlegt að koma upp meistaraflokki svo félagið myndi ekki missa þær í önnur félög. Elvar Gunnarsson var einn af þeim sem var á bak við endurvakningu flokkins. ,,Ástæða þess að við réðumst í þetta verkefni var að eftir að hafa séð á eftir nokkrum stelpum hætta og fara í önnur lið, auk þess að hafa nokkuð sterka annan og þriðja flokk, vantaði einfaldlega verkefni fyrir stelpurnar.“

Þóra Margrét Ólafsdóttir var frá byrjun einn af mikilvægustu leikmönnum liðsins. Hún telur að ekki hefði tekist eins vel upp og raun var ef ekki hefði verið fyrir þá sem stóðu að stofnun flokksins, ,,Stjórnin var stór hluti af því að hlutirnir gengu svona vel upp. Auður Ólafsdóttir vann frábært starf fyrir meistaraflokkinn í nokkur ár og einnig Elvar Gunnarsson. Ef ekki hefði verið fyrir þau og Halldór Björnsson, þjálfara fyrsta árið, hefði þetta ekki gengið svona vel. Umgjörðin og fagmennskan var í fyrirrúmi.“

Elvar bætir við að aðrir hafi átt hlut í stofnuninni m.a. Árny Steingrímsdóttir, Sigríður Ingunn Ágústsdóttir, Helga Þráinsdóttir, Sveinbjörn Másson, Óskar Sigurðsson og Hermann Ólafsson.

Í ljósi þess að árið 2009 gekk í fyrsta skipti árgangur upp úr 2. flokki lá beint við að stofna flokkinn þá. Guðmundur Sigmarsson, ásamt Guðjóni Bjarna Hálfdánarsyni, höfðu verið ráðnir þjálfarar 2. flokks. ,,Það var beðið með að stofna meistaraflokk þangað til að elsti árgangurinn í 2. flokki myndi ganga upp í meistaraflokk. Við töldum að það væru næg verkefni fyrir stelpurnar í 2. flokki til að byrja og var því ekki ráðist í þetta fyrr en 2009,“ segir Guðmundur.

Umgjörðin var kröftug í upphafi
Það var ekki fyrr en árið 2006 sem félagið sendi fyrst 2. flokk kvenna til leiks á Íslandsmóti. Liðið lék þá í 2. deild, en aðeins 3 lið sendu lið til keppni þar. Ári síðar voru hins vegar sex lið í deildinni og greinilegt að líf var að færast í aukana í kringum flokkinn.

Katrín Ýr Friðgeirsdóttir, leikmaður meistaraflokksins í dag, lék með 2. flokki frá stofnun hans, ,,Umgjörðin var kröftug í upphafi en með tímanum var ekki nægilega vel haldið utan um hópinn og margar hættu á þessum tíma. Sú ákvörðun hefur ekki verið erfið fyrir margar vitandi að enginn meistaraflokkur væri á Selfossi.“

Katrín segir að á þessum tíma hafi hún heyrt af því að verið væri að kanna möguleikann á stofnun meistaraflokks, ,,Það var jú alltaf í umræðunni að stofna meistaraflokk, en til þess þurfti stóran og góðan hóp. Þegar margar hættu var ekki laust við að maður missti trúna á að það myndi gerast.“

En svo fór að flokkurinn var stofnaður og að sögn Katrínar var mikil spenna fyrir því, ,,Ég man það ennþá hversu spennt ég var að mæta á fundinn sem haldinn var varðandi stofnun hans. Margar stelpur mættu á þennan fund.“

Stemmningin var frábær
Á þessum árum var mikill uppgangur í kvennaboltanum, jafnt á Selfossi sem annarsstaðar, sem sést hvað best á stöðugri fjölgun liða í meistaraflokki. Þóra minnist þess að stemmningin í liðinu var frábær. ,,Stemningin fyrsta árið var mjög góð. Þetta var blanda af ungum stelpum sem voru að koma upp úr 2. flokki, stelpur sem voru þar enn og eldri kempur sem vildu taka þátt í þessu ævintýri. Þar má nefna nöfn eins og Aníta Guðlaugsdóttir, Arnheiður Helga Ingibergsdóttir, Hafdís Jóna Guðmundsdóttir og Anna Þorsteinsdóttir svo einhverjar séu nefndar.“

Stjórn félagsins stóð vel á bak við liðið og var strax mikill metnaður fyrir því að ná góðum árangri. ,,Stjórnin, leikmenn og þjálfarar voru allir mjög metnaðarfullir og var Halldór Björnsson ráðinn sem þjálfari á fyrsta ári liðsins. Hann kom liðinu í mjög gott form fyrir sumarið og má segja að það hafi verið lykillinn að þeim góða árangri sem náðist á fyrsta ári.“

Liðið endaði þetta fyrsta sumar sitt í þriðja sæti af sex liðum í A-riðli 1. deildar. Það verður að teljast frábær árangur á fyrsta ári liðs í 1. deild. Þegar talið berst að áhuganum í bænum fyrir liðinu segir Þóra að hann hafi verið nokkur, ,,Auðvitað vakti það áhuga knattspyrnuáhugamanna á svæðinu að loksins væri komið kvennalið hjá Selfoss eftir áratugspásu. Ég man vel að það voru þó aðallega foreldrar og dyggir áhugamenn um knattspyrnuna hér sem mættu á leiki. Þetta sama fólk gerir það enn í dag sem verður að teljast magnað.“

Fjórir leikmenn úr upphaflega kjarnanum ennþá með í dag
Það var ákveðinn kjarni sem skapaðist fljótlega eftir stofnun flokksins sem hélst vel fyrstu tvö árin. ,,Sá kjarni spilaði fyrsta tímabilið í 1. deild 2009. Nánast sami hópur spilaði 2010. Þá komumst við í úrslitakeppnina í 1. deild þar sem við lékum við Þrótt Reykjavík um laust sæti í efstu deild. Þeirri viðureign töpuðum við og eftir þetta hættu nokkrar á meðan aðrar tóku við keflinu og tókst okkur að komast í efstu deild ári síðar. Þrátt fyrir það eru enn í dag fjórir leikmenn sem leika með liðinu sem hafa leikið með því frá byrjun. Ásamt mér eru það Íris Sverrisdóttir, Anna María Friðgeirsdóttir og Guðmunda Brynja Óladóttir,“ segir Katrín að lokum.

Þetta er önnur greinin af þremur þar sem Jóhann Ólafur Sigurðsson rekur sögu meistaraflokks kvenna í knattspyrnu á Selfossi. Næsti pistill birtist á sunnlenska.is föstudaginn 29. ágúst. Svo mæta allir á Laugardalsvöllinn laugardaginn 30. ágúst kl. 16 þar sem Selfoss mætir Stjörnunni í úrslitaleik Borgunarbikarsins.

TENGDAR GREINAR:
Saga kvennaknattspyrnunnar á Selfossi – I
Saga kvennaknattspyrnunnar á Selfossi – III

Fyrri greinRally Reykjavík hefst í dag
Næsta greinHitað upp í Intersport