
Selfoss 2 vann góðan sigur þegar liðið heimsótti HK 2 í Kórinn í Kópavogi í 1. deild karla í handbolta í dag. Lokatölur urðu 36-38.
Selfoss 2 leiddi nær allan fyrri hálfleikinn og náði mest fjögurra marka forskoti, 7-11. HK 2 jafnaði 15-15 þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleik en Selfoss 2 skoraði síðustu þrjú mörkin og staðan var 16-18 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn spilaðist líkt og sá fyrri, Selfyssingar voru alltaf skrefinu á undan en munurinn varð aldrei mikill. Selfyssingar náðu þriggja marka forskoti þegar fimm mínútur voru eftir en HK 2 náði að minnka muninn í tvö mörk í blálokin.
Anton Breki Hjaltason skoraði 10 mörk fyrir Selfoss 2, Aron Leo Guðmundsson 6, Skarphéðinn Steinn Sveinsson og Dagur Rafn Gíslason 4, Jónas Karl Gunnlaugsson 3, Dagbjartur Máni Björnsson, Jón Valgeir Guðmundsson, Ragnar Hilmarsson og Guðjón Óli Ósvaldsson 2 og þeir Kristján E. Kristjánsson og Bjarni Valur Bjarnason skoruðu 1 mark hvor.
Ísak Kristinn Jónsson varði 5 skot í marki Selfoss 2 og Einar Gunnar Gunnlaugsson 4.
Selfoss 2 er í 6. sæti deildarinnar með 8 stig en HK 2 í neðsta sæti með 2 stig.