Sætur sigur á heimavelli

Bergrós Ásgeirsdóttir skoraði og lagði upp í dag. Ljósmynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð

Selfoss vann frábæran 2-0 sigur á Breiðabliki í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Selfossvelli í dag.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og Selfoss komst yfir með frábæru marki á 32. mínútu. Bergrós Ásgeirsdóttir átti þá góðan sprett upp hægri kantinn sem lauk með fyrirgjöf á kollinn á Miröndu Nild sem stangaði boltann í netið af stuttu færi.

Staðan var 1-0 í hálfleik en Blikar sóttu án afláts í seinni hálfleiknum. Selfossvörnin og Tiffany Sornpao í markinu voru með allt á hreinu en það er alveg óhætt að segja að Blikamarkið hafði legið í loftinu þegar Selfoss geystist fram í skyndisókn á 73. mínútu. Miranda sendi þá boltann í gegn á Brennu Lovera en markvörður Breiðabliks varði vel frá henni. Frákastið hrökk til Bergrósar Ásgeirsdóttur sem stýrði boltanum laglega í netið.

Úrslitin í leiknum breyta ekki stöðunni á töflunni. Selfoss er áfram í 5. sæti með 28 stig en Breiðablik er í 2. sæti með 33 stig. Sigur Selfoss setur hins vegar baráttu Blika um Evrópusæti í uppnám og Stjarnan á nú góða möguleika á að hirða 2. sætið.

Fyrri grein„Þessir tveir ungu lögreglumenn hefðu bjargað lífi mínu“
Næsta greinHamarsmenn meistarar meistaranna