Sætur sigur á heimavelli

Aron Fannar Birgisson sækir að marki Reynis í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann fimmta sigur sinn í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld þegar liðið fékk Reyni Sandgerði í heimsókn á Selfossvöll.

Selfyssingar voru ekki með öll ljós kveikt í upphafi leiks og Reynismenn komust verðskuldað yfir á 13. mínútu þegar Kristófer Páll Viðarsson skoraði gegn sínum gömlu félögum með góðu skoti úr teignum. Leikurinn róaðist nokkuð eftir góða byrjun Reynismanna en Selfyssingum gekk illa að láta til sín taka í sókninni. Þeim tókst þó að jafna á 31. mínútu en Dagur Jósefsson skoraði þá eftir hornspyrnu þar sem Reynismönnum gekk illa að hreinsa frá markinu. Bæði lið áttu góð færi undir lok fyrri hálfleiks en báðir markverðirnir áttu gott kvöld.

Selfyssingar voru sterkari í seinni hálfleiknum og á 58. mínútu skoraði Aron Fannar Birgisson sigurmark Selfyssinga með skoti úr þröngu færi af nærstönginni eftir frábæran undirbúning Ívans Breka Sigurðssonar á hægri kantinum. Selfyssingar fengu fín færi til þess að bæta við mörkum á lokakaflanum en markvörður Reynis var í miklu stuði og þeir vínrauðu létu sætan 2-1 sigur duga.

Selfyssingar eru því áfram ósigraðir á toppi deildarinnar, nú með 16 stig en Reynir er í 10. sætinu með 4 stig.

Fyrri greinÞrjú-tvö töp hjá Uppsveitum og KFR
Næsta greinSleipnir fagnar 95 ára afmæli