Sætur sigur á heimavelli

Hannes Höskuldsson og Tryggvi Sigurberg Traustason fagna sigri í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann frábæran sigur á Haukum í úrvalsdeild karla í handbolta í kvöld. Þetta var annar sigur liðsins í vetur en lokatölur í Set-höllinni urðu 30-28.

Selfyssingar höfðu frumkvæðið fyrsta korterið en í framhaldinu tóku Haukar öll völd á vellinum og breyttu stöðunni úr 8-7 í 12-17 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Hafnfirðingar hafa eflaust talið björninn unninn því þeir mættu værukærir inn í seinni hálfleikinn og Selfoss jafnaði 21-21 eftir tólf mínútna leik. Eftir það var leikurinn í járnum og jafnt á öllum tölum fram á síðustu stundu.

Selfossliðið var hins vegar sterkara á lokakaflanum og skoraði tvö síðustu mörk leiksins á milli þess sem Alexander Hrafnkelsson átti risavörslur í markinu.

Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Einar Sverrisson skoraði 6/2, Sölvi Svavarsson 5, Álvaro Mallols 3 og þeir Sverrir Pálsson, Gunnar Kári Bragason, Sæþór Atlason og Tryggvi Sigurberg Traustason skoruðu allir 2 mörk. Sverrir var firnasterkur í vörninni að auki með 7 löglegar stöðvanir, 2 stolna bolta og 1 varið skot.

Alexander varði 10 skot í marki Selfoss og var með 48% markvörslu og Vilius Rasimas varði 6/1 skot og var með 27% markvörslu.

Þrátt fyrir sigurinn eru Selfyssingar ennþá í botnsæti deildarinnar, nú með 4 stig, en frammistaðan í kvöld ætti að gefa liðinu byr undir báða vængi í næstu leikjum.

Fyrri greinÞórsarar steinlágu í Njarðvík
Næsta greinMennta- og barnamálaráðherra heimsótti Hveragerði