Sætur eins marks sigur á ÍBV

Atli Ævar Ingólfsson er í 35 manna æfingahóp landsliðsins. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Selfoss vann frábæran eins marks sigur á ÍBV í Olísdeild karla í handbolta úti í Vestmannaeyjum í kvöld, 29-30.

Lokakaflinn var æsispennandi en Hergeir Grímsson tryggði Selfyssingum sigurinn með marki úr vítakasti á lokasekúndunum og Eyjamenn náðu ekki að nýta síðustu sókn sína. Selfoss varð því fyrsta liðið til þess að sigra ÍBV í deildinni í vetur.

Íslandsmeistararnir höfðu frumkvæðið í fyrri hálfleik og náðu mest fjögurra marka forskoti, 6-10 og 9-13. ÍBV minnkaði muninn fyrir leikhlé en staðan í hálfleik var 13-15.

Selfoss virtist ætla að sigla yfir Eyjamenn í upphafi seinni hálfleiks þegar munurinn varð mestur sjö mörk, 16-23. ÍBV náði að svara fyrir sig og á síðustu tíu mínútunum náðu heimamenn 6-1 áhlaupi og komust yfir, 29-28, þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir.

Lokakaflinn var æsispennandi en Selfoss fékk sem fyrr segir víti á lokamínútunni og úr því skoraði Hergeir sigurmarkið.

Atli Ævar Ingólfsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Hergeir Grímsson skoraði 6/2, Haukur Þrastarson 6, Guðjón Baldur Ómarsson 4, Árni Steinn Steinþórsson 3, Magnús Öder Einarsson 2 og Nökkvi Dan Elliðason 1.

Einar Baldvin Baldvinsson varði 9/1 skot í marki Selfoss.

Selfoss er nú í 5. sæti deildarinnar með 7 stig en ÍBV er í 3. sæti með 8 stig. 

Fyrri greinHaustfrí fjölskyldunnar… við mælum með Suðurlandi!
Næsta greinGissur gefur kost á sér