Sætt sigurmark í uppbótartíma

Valdimar Jóhannsson skoraði sigurmark Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar unnu dramatískan sigur á Vestra á útivelli í 1. deild karla í knattspyrnu í dag, 1-2.

Fyrri hálfleikurinn var rólegur, bæði lið fengu hálffæri og ekki var mikið um tilþrif af neinu tagi.

Staðan var 0-0 í leikhléi en það dró heldur betur til tíðinda á fyrsta korterinu í seinni hálfleik. Vestramenn komust yfir á 51. mínútu með skallamarki eftir hornspyrnu en fimm mínútum síðar fengu Selfyssingar vítaspyrnu þegar brotið var á Gary Martin. Hann fór sjálfur á vítapunktinn og lét verja frá sér vítaspyrnuna en fylgdi sjálfur eftir og skoraði.

Selfyssingar léku vel í kjölfarið en náðu ekki að skapa sér nein færi að ráði. Þegar tíu mínútur voru eftir slapp Valdimar Jóhannsson innfyrir en markvörður Vestra sá við honum. Valdimar bætti hins vegar fyrir þetta á þriðju mínútu uppbótartímans þegar hann skoraði gott mark eftir góðan undirbúning Þorláks Breka Baxter og Gary Martin.

Augnabliki síðar flautaði dómarinn til leiksloka og Selfyssingar fögnuðu með því að hlaupa með stigin þrjú út á flugvöll og beint upp í vél.

Selfoss jók muninn á Þrótt í fimm stig í fallbaráttunni og hefur nú 12 stig í 10. sæti. Vestri er í 7. sæti með 19 stig.

Fyrri greinAllt stopp í Kömbunum
Næsta greinBesti árangur GOS frá upphafi