„Sá þetta fyrir mér á koddanum í gærkvöldi“

Bikarmeistararnir fagna í ágúst 2019. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þóra Jónsdóttir var hetja Selfyssinga í bikarúrslitaleiknum gegn KR en hún kom inná sem varamaður og skoraði sigurmarkið, 2-1, í framlengingunni.

„Þetta er alveg ólýsanlegt, alveg geggjað. Þetta var baráttuleikur, jöfn lið, og þetta snerist um hvort liðið vildi þetta meira, og við vildum þetta meira,“ sagði Þóra í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Markið hennar Þóru var fyrsta mark hennar í meistaraflokki og hún valdi aldeilis augnablikið til þess að skora sitt fyrsta mark.

„Já, þetta var ágætis móment til þess að skora fyrsta meistaraflokksmarkið. Ég er búin að vera að spara þetta,“ sagði hún hlæjandi, „Nei, það er gaman að geta sett mark á svona mikilvægu mómenti. Ég var búin að sjá þetta fyrir mér á koddanum í gærkvöldi og það var geðveikt að þetta rættist.“

Þóra hefur verið í stóru hlutverki hjá Selfossliðinu í sumar, eitthvað sem hún sá ekki fyrir sér fyrir tveimur árum síðan, þegar hún var að velta því fyrir sér að hætta að æfa fótbolta.

„Fyrir tveimur árum var ekki að ganga vel hjá mér persónulega. Ég var ekki í formi og ekki að fá að spila. Í staðinn fyrir að hætta þá ákvað ég að gera eitthvað í því og ég er búin að leggja mikið á mig. Ef maður trúir á verkefnið þá getur allt gerst. Þetta er búin að vera mikil vinna og það er geggjað að fá svona móment að launum,“ sagði Þóra að lokum.

 

Fyrri grein„Ótrúlega ánægður og hamingjusamur fyrir hönd Selfoss“
Næsta greinKFR missti af úrslitakeppninni