Sætur sigur að Hlíðarenda

Hamar vann mjög góðan sigur á Val í Domino's-deild kvenna í körfubolta í kvöld. Lokatölur að Hlíðarenda voru 68-75.

Liðin þekkja hvort annað vel, Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals er fyrrum þjálfari Hamars og fjöldi leikmanna Vals lék með Hamri undir hans stjórn. Það gerði sigur Hamars ekki síst sætari.

Hamarskonur mættu brjálaðar til leiks og tóku strax forystuna. Eftir fjórar mínútur komst Valur yfir, 10-9, en það var í eina skiptið í leiknum sem heimaliðið hafði forystuna. Jafnt var framundir lok leikhlutans þangað til Hamar tók 2-9 áhlaup og leiddi 18-26 að tíu mínútum liðnum.

Hamar skoraði fjögur fyrstu stigin í 2. leikhluta og voru Hvergerðingar þá komnir með tólf stiga forystu, 18-30. Lítið var skorað í 2. leikhluta en Hamar hélt forystunni fram að leikhléi og staðan var 29-35 í hálfleik.

Hvergerðingar juku forskotið aftur í tíu stig á upphafsmínútum 3. leikhluta en Valur svaraði þá með 8-0 kafla og minnkaði muninn í tvö stig, 45-47. Þá skoraði Hamar sjö stig í röð og þegar síðasti fjórðungurinn hófst höfðu Hamarskonur níu stiga forskot, 47-56.

Síðasti fjórðungurinn var í járnum, Valskonur reyndu að þjarma að Hamarsliðinu en Hvergerðingar svöruðu alltaf með stigum og héldu Valsliðinu frá sér. Munurinn varð minnstur fjögur stig í upphafi leikhlutans en Hamarskonur voru svalar undir lokin og Íris Ásgeirsdóttir, fyrirliði, raðaði niður vítaskotunum.

Di’Amber Johnson var maður leiksins með 22 stig, 7 stoðsendingar og 7 stolna bolta. Íris Ásgeirsdóttir skoraði einnig 22 stig, Marín Laufey Davíðsdóttir átti fínan leik með 18 stig og 12 fráköst, Fanney Lind Guðmundsdóttir skoraði 8 stig og tók 11 fráköst og Sóley Guðgeirsdóttir skoraði 6 stig.

Hamar hefur blásið á hrakspár í upphafi tímabils og er nú í 4. sæti Domino’s-deildarinnar með 6 stig.

Fyrri greinGert ráð fyrir 99 milljóna króna afgangi
Næsta greinNýja móttökuhúsið komið á Litla-Hraun