Sævar frá í mánuð

Sævar Þór Gíslason framherji Selfossliðsins í knattspyrnu mun ekki leika með liðinu næsta mánuðinn vegna meiðsla.

Sævar handarbrotnaði í leik Selfoss gegn ÍA í deildarbikarnum á fimmtudagskvöld. Það var fyrsti leikur hans með liðinu síðan í haust en Sævar fór í aðgerð að loknu Íslandsmótinu á síðasta ári og hefur fengið sig góðan af þeirri viðgerð.

Á stuðningsmannasíðu Selfossliðsins, www.selfoss.org, kemur fram að Sævar getur fljótlega farið að hlaupa og æfa en hann má ekki spila næstu fjórar vikurnar.