Sætur sigur eftir spennandi lokakafla

Kvennalið Selfoss vann 24-21 sigur á HK í Olís-deildinni í handbolta í kvöld þegar liðin mættust í Vallaskóla. Leikurinn var bráðfjörugur og spennandi.

HK byrjaði betur og leiddi 7-10 þegar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum en Selfoss lauk fyrri hálfleik á 5-1 áhlaupi og tryggði sér forystu í hálfleik, 12-11. Áslaug Ýr Bragadóttir, markvörður, átti góðan leik og hélt Selfyssingum inni í leiknum í fyrri hálfleik en sóknarleikur liðsins var ekki burðugur framan af.

Í upphafi síðari hálfleiks virtust þær vínrauðu ætla að gera út um leikinn og á 40. mínútu var staðan orðin 18-13. Þá slakaði Selfossliðið full mikið á klónni og á tíu mínútna kafla náði HK að jafna, 19-19. Lokamínúturnar voru æsispennandi og það var ekki fyrr en rúm mínúta var eftir að leikurinn var kominn aftur í öruggar hendur Selfossliðsins.

Hrafn­hild­ur Hanna Þrast­ar­dótt­ir var marka­hæst Sel­fyss­inga með 9/​5 mörk, Adina Ghido­arca skoraði 5, Car­men Palam­ariu 4, Perla Ruth Al­berts­dótt­ir 3, Kristrún Steinþórs­dótt­ir 2 og Hild­ur Öder Ein­ars­dótt­ir 1.

Áslaug Ýr Braga­dótt­ir átti frá­bær­an leik í marki Sel­foss, varði 20/1 skot og var með 50% markvörslu.

Selfyssingar sitja nú í 7. sæti deildarinnar með 14 stig og má segja að liðið sé neðst í efri hluta deildarinnar. Talsvert bil er niður í næstu lið fyrir neðan sem eru í þéttum pakka á neðri hluta stigatöflunnar.

Fyrri greinÖlver sigraði í karlaflokki
Næsta greinSelfyssingar kláruðu NM með stæl