„Sætara verður það ekki“

Lið Selfoss/Hamars/Ægis/Árborgar vann frábæran 2-3 sigur á Þrótti/SR í 2. flokki karla í knattspyrnu á gervigrasinu í Laugardalnum í gær.

„Ég hef ekki upplifað svona hádramatískan fótboltaleik lengi. Við lentum undir 2-0 og vorum einum færri í 40 mínútur. En þrátt fyrir mikið mótlæti, þar sem við töldum á okkur hallað, þá héldum við haus og komum tilbaka og unnum leikinn. Þessi leikmannahópur er náttúrlega klikkaður, við komum hérna til þess að vinna og sætara verður það ekki,“ sagði Njörður Steinarsson, annar þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Selfyssingar pressuðu mjög stíft í fyrri hálfleik og voru með yfirhöndina en þrátt fyrir það komust Þróttarar yfir á 13. mínútu. Skömmu síðar fengu Selfyssingar vítaspyrnu, Freyr Sigurjónsson fór á punktinn en lét verja frá sér. Selfyssingar fengu fleiri góð færi í fyrri hálfleik en inn vildi boltinn ekki. Á lokamínútu fyrri hálfleiks fékk svo Ólafur Þór Sveinbjörnsson sitt annað gula spjald, svo að Selfyssingar byrjuðu seinni hálfleikinn manni færri.

Þrátt fyrir það komu Selfyssingar tvíefldir til leiks í seinni hálfleik og freistuðu þess að jafna leikinn. Á 61. mínútu gerðist umdeilt atvik, aðstoðardómari flaggar boltann útaf en dómarinn lét leikinn halda áfram. Í framhaldinu kom stungusending inn fyrir og Þróttur komst í 2-0. Mikil reikistefna varð í kjölfarið á vellinum og hiti í mönnum, bæði innan vallar og utan. Dómarinn úrskurðaði markið hins vegar löglegt og fjölmargir stuðningsmenn Selfoss í stúkunni voru mjög ósáttir við dóminn.

Þeir vínrauðu gáfust hins vegar ekki upp þrátt fyrir mótlætið. Sex mínútum síðar minnkaði Freyr Sigurjónsson muninn fyrir Selfoss með góðu marki og staðan orðin 2-1. Sóknarþungi Selfyssinga hélt áfram og á 87. mínútu jafnaði Oliver Gylfason metin eftir mikinn darraðadans í vítateig Þróttara.

En þá var ekki öll sagan sögð; eftir stanslausar sóknir á lokamínútunum kom loks sigurmark Selfoss á 95. mínútu. Þar var að verki Jökull Hermannsson, sem þrumaði boltanum inn af stuttu færi með síðustu snertingu leiksins. Dómarinn flautaði leikinn af og 2-3 sigur Selfyssinga staðreynd í fyrsta útileik sumarsins.

Selfoss 2 vann síðan öruggan sigur á Þrótti 2 í sínum leik, 2-7, þar sem Jökull Hermannson skoraði þrjú marka liðsins.

Næsti leikur 2. flokks verður á móti Aftureldingu á Selfossvelli fimmtudaginn 4. júní.

Fyrri grein„Hef líklega aldrei slegið svona vel“
Næsta greinSogsbrú lokuð fram að hádegi