Rutkauskas rótaði upp tröllatvennu

Ronaldas Rutkauskas var ferskur á parketinu í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íslandsmeistarar Þórs unnu glæsilegan sigur á KR í úrvalsdeild karla í körfubolta á útivelli í kvöld.

KR-ingar höfðu frumkvæðið í 1. leikhluta og leiddu að honum loknum, 19-18. Í 2. leikhluta var allt annað að sjá til Þórsara, þeir luku fyrri hálfleiknum af krafti og breyttu stöðunni úr 30-30 í 36-43 á síðustu fjórum mínútunum.

Í byrjun seinni hálfleiks náðu Þórsarar að búa sér til þægilegt forskot en KR-ingar voru í jötunmóð undir lok 3. leikhluta og í upphafi þess fjórða og minnkuðu þá muninn í 64-66. Þá kviknaði aftur neisti hjá Þórsurum sem juku forskotið hratt í kjölfarið og sigruðu að lokum 84-100.

Ronaldas Rutkauskas mætti sterkur til leiks í kvöld með tröllatvennu, skoraði 21 stig og tók 17 fráköst fyrir Þórsara. Glynn Watson og Daniel Mortensen stóðu honum á sporði í stigaskorun, báðir með 21 stig sömuleiðis.

Þegar tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni eru Þórsarar í toppsætinu með 32 stig en Njarðvík og Keflavík sem eru þar fyrir neðan með 28 og 26 stig eiga einn leik til góða á þá grænu.

Tölfræði Þórs: Daniel Mortensen 21/7 fráköst, Glynn Watson 21/5 fráköst/7 stoðsendingar, Ronaldas Rutkauskas 21/17 fráköst, Luciano Massarelli 11/6 stoðsendingar, Kyle Johnson 8, Tómas Valur Þrastarson 6, Ragnar Örn Bragason 5/6 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 5, Davíð Arnar Ágústsson 2.

Fyrri greinJóhanna Ýr leiðir B-listann í Hveragerði
Næsta greinMilner snæddi kvöldverð í Tryggvaskála