Rúmlega 90 þátttakendur á Halldórsmóti

Í gær var haldið mjög fjölmennt skákmót í Flúðaskóla þar sem 92 þátttakendur tóku þátt í svokölluðu Halldórsmóti.

Mótið er haldið í minningu Halldórs Gestssonar sem var afar vinsæll húsvörður í skólanum og kenndi m.a. fjölda ungmenna að tefla.

Mikill keppnisandi ríkti á mótinu og stóðu hinir ungu skákmenn sig með miklum ágætum. Þetta er annað árið sem slíkt skákmót fer fram í skólanum.

Filip Jan í 4. bekk sigraði í yngri flokki, Jóhann Halldór í 7. bekk varð annar, Óskar í 5. bekk þriðji og Anton Gunnlaugur í 5. bekk fjórði.

Í eldri flokknum sigraði 9. bekkingurinn Jón Karl, annar varð Jón Aron í 10. bekk, Jóhannes í 10. bekk þriðji og Þórmundur Smári í 9. bekk fjórði.

Sigurvegararnir unnu sér rétt til þess að taka þátt í kjördæmamóti skákmanna á Suðurlandi.