Hvatasjóður íþróttahreyfingarinnar er nýr sjóður á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Ungmennafélags Íslands með stuðningi mennta- og barnamálaráðuneytis.
Fjórtán verkefni aðildarfélaga HSK hlutu styrk úr sjóðnum í ár, samtals að upphæð 7.350.000 króna.
Sjóðurinn styrkir verkefni sem miða að útbreiðslu íþrótta og aukinni þátttöku barna í íþróttum með áherslu á þátttöku barna með fötlun, af tekjulægri heimilum og með fjölbreyttan tungumála og menningarbakgrunn.
HSK og Umf. Selfoss fengu samtals 2,5 milljónir króna fyrir Íslandsleikana, sem haldnir voru á Selfossi í vor og fyrir íþróttir fyrir börn með fatlanir. Að auki fékk Umf. Selfoss og deildir innan félagsins rúmar 2,2 milljónir króna fyrir íþróttir fyrir fötluð börn og unglinga og verkefnið Fótbolti fyrir alla.
Umf. Hekla fékk 1.350 þúsund krónur fyrir inngildingu barna af erlendum uppruna og fyrir verkefnið Frá brottfalli til bætinga.
Lægri styrkir, á bilinu 100 til 300 þúsund fóru til körfuknattleiksdeildar Uppsveita fyrir uppbyggingu deildarinnar, Umf. Biskupstunga fyrir verkefnið Allir saman, til Hamars í Hveragerði fyrir Hamarsport unglinga, Umf. Laugdæla fyrir stúlknakörfubolta 16-18 ára og fyrir Íþróttaskóla barnanna og þá fékk Umf. Hvöt styrk til að efla pílukast innan félagsins.
