Rúllað yfir Sindra

Kvennalið Selfoss vann stórsigur á Sindra í C-deild Lengjubikarsins í knattspyrnu í morgun, 7-0.

Thelma Sif Kristjánsdóttir kom Selfyssingum yfir á 8. mínútu og tveimur mínútum síðar hafði Guðmunda Brynja Óladóttir komið Selfoss í 2-0. Selfyssingar voru sterkari í fyrri hálfleik en þriðja markið kom ekki fyrr en undir lok hálfleiksins. Guðmunda skoraði þá annað mark sitt á 44. mínútu og staðan var 3-0 í hálfleik.

Guðmunda kórónaði þrennuna á 8. mínútu síðari hálfleiks og fimm mínútum síðar komst Anna María Friðgeirsdóttir á blað og kom hún Selfoss í 5-0.

Á 63. mínútu leysti Guðmunda Ingu Láru Sveinsdóttur af í marki Selfoss en Inga Lára var tæp fyrir leikinn vegna meiðsla. Guðmunda átti náðugan dag í markinu og Selfoss hélt áfram að raða inn mörkunum hinumegin á vellinum.

Guðbjörg Una Hallgrímsdóttir kom Selfoss í 6-0 á 69. mínútu og fjórum mínútum síðar kom sjöunda markið. Það var sjálfsmark varnarmanns Sindra undir pressu frá Önnu Maríu.

Sigurinn setur Selfoss örugglega í efsta sæti riðilsins með 7 stig og markatöluna 14-2.

Selfoss á eftir að leika við Fram í lokaumferð riðilsins eftir páska en Fram er í 2. sæti riðilsins með 4 stig og á leik til góða á Selfoss.

Fyrri greinÓk of snemma af stað
Næsta greinIngi með eina mark Selfoss