„Rosalegur heiður fyrir mig“

Leik Selfoss og KR var útvarpað beint á samtengdum rásum Suðurland FM og KR útvarpsins. Vignir Egill Vigfússon og Bjarni Fel lýstu leiknum.

„Það var virkilega skemmtilegt að fá að lýsa leik með Bjarna Fel. Hann er með áratuga langa reynslu og veit upp á hár hvað hann er að gera,“ sagði Vignir Egill í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Þetta er klárlega hápunkturinn á mínum fjölmiðlaferli. Það er rosalegur heiður fyrir mig sem íþróttafréttamann að lýsa leik með Bjarna Fel. Þetta er eitthvað sem er gaman að eiga í reynslubankanum – það er næsta víst,“ sagði Vignir og bætir við að hann hafi haft það frekar náðugt í útsendingunni.

„Já, ég er búinn að lýsa hátt í fimmtíu Selfossleikjum og held að ég hafi aldrei þurft að gera jafn lítið. Bjarni er mikill fagmaður en hann hleypti mér að þegar hann vildi fá sér kaffi,“ segir Vignir léttur að lokum.

Þess má að lokum geta að Vignir Egill á annasama viku framundan en hann stýrir Þjóðhátíðarþættinum „Í brekkunni“ á Suðurland FM ásamt Bessa hressa. Fyrsti þátturinn fer í loftið á morgun kl. 13.