„Rosalega mikilvægur sigur“

Árborg vann góðan útisigur á Hamri í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld þegar liðin mættust á Grýluvelli.

„Þetta var bara gaman. Stál í stál, tvö mjög góð lið og barátta allan leikinn. Þetta var rosalega mikilvægur sigur fyrir okkur. Við erum búnir að vinna þrjá leiki í röð núna og fá á okkur lítið af mörkum. Þjálfarateymið lagði þetta vel upp, þeir eru að vinna virkilega gott starf og Kiddi aðstoðarþjálfari hefur séð til þess að allir eru í góðu standi,“ sagði Einar Guðni Guðjónsson, fyrirliði og markvörður Árborgar, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. Hann átti sjálfur frekar náðugt kvöld á milli stanganna.

„Nei, ég hafði svosem ekki mikið að gera. Varnarlínan stóð sig vel og við vorum þéttir á miðjunni þannig að þeir voru ekki að skapa mikið. Það var sömuleiðis þannig hinu megin, við fengum ekkert allt of mikið af færum,“ sagði Einar ennfremur.

Árborgarar voru miklu líklegri til þess að skora fyrstu tuttugu mínútur leiksins. Tómas Hassing átti skot rétt framhjá og Magnús Helgi Sigurðsson fékk frítt skot í vítateignum sem Hlynur Kárason varði meistaralega.

Þegar leið á fyrri hálfleikinn komust Hvergerðingar meira inn í leikinn en sköpuðu sér þó engin færi. Það dró hins vegar til tíðinda á 39. mínútu. Tómas Kjartansson átti þá góða sendingu fyrir mark Hamars og Magnús Helgi stakk sér framfyrir Hlyn og skoraði.

Forysta Árborgar varði þó ekki nema í 90 sekúndur því strax í næstu sókn Hamars braut Steinar Sigurjónsson á Loga Geir Þorlákssyni innan vítateigs. Góður dómari leiksins dæmdi umsvifalaust vítaspyrnu og Ágúst Örlaugur Magnússon, fyrirliði Hamars, lætur slík færi ekki fara forgörðum. Einar Guðni var reyndar í boltanum en réð ekki við fasta spyrnu fyrirliðans.

Staðan var því 1-1 í hálfleik og síðari hálfleikur var nánast tíðindalaus allt fram á 72. mínútu. Magnús Helgi átti þá frábæran sprett upp hægri kantinn og launaði hann Tómasi Kjartanssyni stoðsendinguna úr fyrra markinu með góðri sendingu inn á teiginn. Tómas tók léttan snúning og lagði boltann svo í netið á Hamarsmarkinu.

Bæði lið áttu álitlegar sóknir á lokakaflanum án þess þó að skapa sér hættuleg færi. Lokatölur 1-2 og Árborg jafnaði þar með ÍH að stigum í toppsætinu með 9 stig. Hamar er hins vegar áfram í 3. sæti riðilsins með 3 stig.

Fyrri greinÁtta verðlaun til Sunnlendinga
Næsta greinHorfir til vandræða vegna sandfoks við Kambinn