Rochford með þrefalda tvennu í tapleik

Kinu Rochford skoraði 14 stig, tók 10 fráköst og sendi 10 stoðsendingar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn tapaði naumlega gegn Keflavík í hörkuleik í úrvalsdeild karla í körfubolta í Þorlákshöfn í kvöld, 99-103.

Keflvíkingar voru sterkari í upphafi leiks og komust í 6-14 en þá náðu Þórsarar vopnum sínum og röðuðu niður stigunum. Varnirnar voru reyndar litlar af beggja hálfu í 1. leikhluta og staðan eftir hann 28-30.

Þórsarar byrjuðu betur í 2. leikhluta og komust mest sjö stigum yfir, 49-42, en þá fór allt í baklás og Þór skoraði ekki stig síðustu fjórar mínúturnar í fyrri hálfleik. Þrettán stig í röð hjá gestunum og staðan 49-55 í leikhléi.

Í þriðja leikhluta var allt í járnum, Keflavík byrjaði betur en Þór svaraði með 15-5 áhlaupi og komst yfir, 72-71.

Það var ljóst að leikurinn færi niður á vírinn og síðasti leikhlutinn var jafn og bráðskemmtilegur. Keflvíkingar settu niður tvo stóra þrista í röð þegar fjórar mínútur voru eftir og náðu sex stiga forskoti sem Þór náði ekki að brúa þrátt fyrir góðan sprett. Munurinn var tvö stig á lokamínútunni þar sem gestirnir voru komnir í bónus en klikkuðu nánast ekki á vítalínunni og Þórsarar þurftu að játa sig sigraða.

Nikolas Tomsick var stigahæstur hjá Þór í kvöld með 24 stig og 12 stoðsendingar. Halldór Garðar Hermannsson skoraði 23 stig, Jaka Brodnik 15 en Kinu Rochford var bestur í liði Þórs í kvöld með þrefalda tvennu, 14 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar – og 3 varin skot að auki.

Þórsarar eru áfram í 6. sæti deildarinnar með 22 stig en Keflavík er í 4. sæti með 28 stig.

Tölfræði Þórs: Nikolas Tomsick 24/12 stoðsendingar, Halldór Garðar Hermannsson 23/4 fráköst, Jaka Brodnik 15/8 fráköst, Kinu Rochford 14/10 fráköst/10 stoðsendingar/3 varin skot, Davíð Arnar Ágústsson 10, Ragnar Örn Bragason 8, Emil Karel Einarsson 5.

Fyrri greinLjúfur draumur rætist á Laugarvatni
Næsta greinFunduðu um samfélagsmál með forsætisráðherra