Robert Blakala í Selfoss

Robert Blakala gengur frá pappírsvinnunni vegna félagaskipta sinna frá Njarðvík í Selfoss. Ljósmynd/Aðsend

Pólski markvörðurinn Robert Blakala er genginn í raðir knattspyrnudeildar Selfoss og hefur gert tveggja ára samning við félagið.

Blakala hefur spilað með Njarðvík síðustu þrjú tímabil en samningur hans við þá grænklæddu rann út nú nýlega og kemur hann því til Selfoss á frjálsri sölu. Blakala spilaði undir stjórn núverandi þjálfara Selfoss, Bjarna Jóhannssonar, um tíma með Njarðvík og Vestra.

„Ég er ánægður með að vera búinn að skrifa undir hjá Selfoss. Ég átti langt og gott samtal við Bjarna sem sagði mér frá verkefninu sem framundan er og ég er virkilega spenntur fyrir því,“ segir Blakala í fréttatilkynningu frá Selfyssingum.

Robert Blakala er fæddur árið 1994 en hann hefur spilað á Íslandi frá 2018, með Njarðvík og Vestra.

„Við Bjarni höfum tvisvar sinnum farið upp um deild saman, bæði með Njarðvík og Vestra og næst er það vonandi Selfoss. Ég get ekki beðið eftir því að koma til landsins, hitta liðsfélagana og byrja að spila,“ sagði Blakala að lokum.

Fyrri greinJanus og Ómar ekki með gegn Króötum
Næsta greinGrímsvatnahlaupi að ljúka – Sigketill við Grímsfjall