Risatap á Nesinu

Kvennalið Selfoss fékk heldur betur skell þegar liðið heimsótti topplið Gróttu í Olís-deildinni í handbolta í kvöld.

Grótta hafði algjöra yfirburði frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Staðan var orðin 11-2 um miðjan fyrri hálfleik en staðan í leikhléi var 18-5.

Það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik og að lokum skildi 21 mark liðin að, 31-10.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði helming marka Selfossliðsins, Carmen Palamariu skoraði fjögur og Margrét Jónsdóttir eitt.

Grótta er í toppsætinu með 34 stig en Selfoss er í 8. sæti með 15 stig.

Fyrri greinÁtta sækja um að stýra sjúkraflutningunum
Næsta greinHamar steinlá gegn ÍA