Selfoss tók á móti Gróttu í sex stiga leik í fallbaráttu Lengjudeildar karla í knattspyrnu í kvöld.
Það blés hressilega á Selfossvelli og í seinni hálfleik byrjaði að rigna og það er óhætt að segja að veðrið hafi sett sitt mark á leikinn.
Selfyssingar voru sterkari í fyrri hálfleik og fengu nokkur ágæt færi en inn vildi boltinn ekki. Staðan var 0-0 í leikhléi og í seinni hálfleiknum var hvorugt liðið mjög líklegt til að skora, lengi vel.
Gróttumenn voru meira með boltann en náðu ekki að skapa opin færi. Síðustu tíu mínúturnar sóttu Selfyssingar í sig veðrið og þjörmuðu vel að marki gestanna. Eitthvað varð undan að láta og á sjöundu mínútu uppbótartímans hamraði Adrian Sanchez boltann í netið þar sem hann lúrði fyrir utan vítateiginn eftir hornspyrnu og tryggði Selfossi 1-0 sigur.
Nokkrum andartökum síðar flautaði dómarinn leikinn af og Selfyssingar fögnuðu vel. Þrátt fyrir sigurinn er Selfoss enn í fallsæti. Liðið er með 23 stig, eins og Grótta, Þróttur og Njarðvík en Selfyssingar hafa lang lakasta markahlutfallið.