„Risastórt framlag frá liðinu í heild sinni“

Kvennalið Selfoss gerði góða ferð til Vestmannaeyja og sigraði ÍBV 0-1 þegar keppni hófst í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Lauren Hughes skoraði eina mark leiksins á 21. mínútu og var það fyrsta mark Pepsi-deildarinnar í ár. Markið var af dýrari gerðinni, Hughes fékk háa sendingu inn í teig frá Evu Lind Elíasdóttur, tók frábærlega við boltanum og afgreiddi hann með föstu skoti upp í samskeytin.

Þetta reyndist eina mark leiksins en leikurinn var fjörugur og bauð upp á ýmis tilþrif á báða bóga. Bæði lið áttu skot í tréverkið og bæði lið virtust vera rænd vítaspyrnum í sitthvorum hálfleiknum.

„Þetta var jafn og erfiður leikur og vindurinn spilaði stóra rullu en við áttum góðan leik í kvöld,“ sagði Valorie O’Brien, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Lo skoraði fallegt mark eftir gott uppspil en leikurinn í heild sinni vannst á risastóru framlagi frá liðinu í heild sinni. Það er það sem við áttum von á og það sem leikur okkar snýst um. Við njótum þess að sigla þremur stigum heim og erum ánægðar með að hefja sumarið á þennan hátt,“ sagði Valorie ennfremur.

Næsti deildarleikur Selfoss er gegn Stjörnunni á JÁVERK-vellinum að viku liðinni.

Fyrri greinFékk norræn verðlaun fyrir MA ritgerð
Næsta greinHamar úr leik í bikarnum