Risastór boltahelgi framundan

Arnar Logi Sveinsson og félagar mæta Kórdrengjum í 1. umferð Mjólkurbikars karla í knattspyrnu á laugardag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Eftir samkomutakmarkanir síðustu vikna hafa íþróttakeppnir verið leyfðar á nýjan leik og verður mikið um að vera hjá sunnlensku boltaliðunum um helgina.

Þorlákshafnar-Þórsarar ríða á vaðið en þeir taka á móti KR í úrvalsdeild karla í körfubolta kl. 20:15 í kvöld.

Á föstudag eiga öll sunnlensku liðin í 1. deild karla í körfubolta heimaleiki kl. 19:15. Selfoss tekur á móti Álftanesi, Hrunamenn fá Breiðablik í heimsókn og Hamar mætir Fjölni. Á sama tíma leikur Knattspyrnufélag Árborgar á útivelli gegn Hvíta riddaranum í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu.

Á laugardag er stórleikur í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu kl. 14:00 þar sem Selfoss mætir Kórdrengjum á heimavelli og á sama tíma heimsækir KFR Ými í Kópavoginn. Kl. 16:15 leikur kvennalið Hamars-Þórs á útivelli gegn Fjölni-b í 1. deildinni í körfubolta

Á sunnudag kl. 12 spilar Hamar gegn Vestra í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu og kl. 17 er Suðurlandsslagur þegar Ægir og Uppsveitir mætast. Báðir leikirnir eru á gervigrasinu á Selfossi. Í millitíðinni, kl. 14:00, leikur Stokkseyri gegn KFB á útivelli. Á sunnudag mæta Selfyssingar aftur til leiks í Olísdeild karla í handbolta en Selfoss fær ÍR í heimsókn kl. 16:00. Síðasti leikur helgarinnar er í úrvalsdeild karla í körfubolta þar sem Þórsarar heimsækja Tindastól á Sauðárkrók kl. 18:15.

Eftir því sem næst verður komist eru 100 áhorfendur leyfðir í númeruð sæti, þar sem því verður við komið. Áhorfendur verða því ekki leyfðir á leik Selfoss og Kórdrengja á gervigrasvellinum á Selfossi, þar sem ekki eruð númeruð sæti.

Fyrri greinLitagleði Kolbrúnar í Listagjánni
Næsta greinPlokk er ein besta líkamsræktin