„Risastór áfangi fyrir ungmennafélagið og sveitarfélagið“

Fulltrúar Sveitarfélagsins Árborgar og knattspyrnudeildar Ungmennafélags Selfoss skrifuðu í kvöld undir viljayfirlýsingu um samstarf um uppbyggingu knatthúss á Selfossvelli.

Sveitarfélagið samþykkti á dögunum fjármagn til verkefnisins á fjárhagsáætlun ársins 2018 og er reiknað með að helmingur kostnaðarins við bygginguna verði greiddur árið 2019. Alls er gert ráð fyrir 250 milljónum króna til verkefnisins.

Samkvæmt viljayfirlýsingunni munu byggingarframkvæmdir hefjast á næsta árið og að húsið verði formlega tekið í notkun árið 2019. Sveitarfélagið og knattspyrnudeildin munu gera með sér nánara samkomulag um útfærslu verkefnisins, framkvæmdahraða og aðra þætti.

Þörfin fyrir svona hús er gríðarleg
„Þetta eru tímamót í starfsemi deildarinnar og ungmennafélagsins alls og mjög langþráður og góður draumur að verða að veruleika. Síðan gervigrasvöllurinn var tekinn í notkun árið 2005 þá hefur okkur dreymt um inniaðstöðu. Við skipuðum starfshóp fyrir tæpum tveimur árum og síðan þá hefur verið unnið markvisst að þessu í samstarfi við sveitarfélagið og ungmennafélagið,“ sagði Jón Steindór Sveinsson, formaður knattspyrnudeildarinnar, við þetta tækifæri.

„Þörfin fyrir svona hús er gríðarleg. Æfingar hafa verið að falla niður yfir vetrartímann og við höfum verið að keyra krakkana okkar á æfingar í Hveragerði. Það er ekki bara knattspyrnan sem nýtur góðs af þessu húsi heldur mun það nýtast öðrum deildum, til dæmis frjálsíþróttadeildinni, og fleiri í samfélaginu, til dæmis eldri borgarar, geta notað það til að ganga og hreyfa sig. Fyrir ungmennafélagið og sveitarfélagið í heild sinni er þetta risastór áfangi,“ sagði Jón ennfremur.

Sóknarfæri inn í framtíðina
Kjartan Björnsson, formaður íþrótta- og menningarnefndar Árborgar, óskaði viðstöddum til hamingju með þessi tímamót. „Þetta er mikið gleðiefni af hálfu sveitarfélagsins að fara í þetta samstarf. Þessi framkvæmd mun lyfta okkur upp á hærra stig og byggja knattspyrnuna á Selfossi upp enn frekar. Við munum ekki þurfa að keyra börnin okkar til æfinga í öðrum sveitarfélögum og það er gríðarlega mikill styrkur fyrir okkur. Nýja húsið mun líka rýmka fyrir tímum í núverandi íþróttahúsum og nýtast fleiri aðilum, sér í lagi eldra fólki sem á erfitt með að ganga í hálku og snjó. Þetta mun færa okkur sóknarfæri inn í framtíðina,“ sagði Kjartan.

Það voru Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, Kjartan Björnsson, forseti bæjarstjórnar Árborgar, Jón Steindór Sveinsson, nýr formaður knattspyrnudeildarinnar og Adólf Ingvi Bragason, fráfarandi formaður knattspyrnudeildarinnar, sem skrifuðu undir viljayfirlýsinguna að viðstöddu fjölmenni í félagsheimilinu Tíbrá á Selfossvelli.

Fyrri greinSindri Seim setti Íslandsmet í 200 metra hlaupi
Næsta greinJólahrákaka