Risasigur Hamars/Þórs

Emma Hrönn Hákonardóttir sækir að körfu ÍR. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar/Þór vann sannkallaðan stórsigur á ÍR í 1. deild kvenna í körfubolta þegar liðin mættust í Þorlákshöfn í dag.

Getumunurinn á liðunum var mikill og lið Hamars/Þórs var fljótlega komið með gott forskot. Heimakonur skoruðu fyrstu fimm stigin í leiknum og staðan eftir 1. leikhluta var 31-12. Munurinn í leikhléi var orðinn 28 stig, 48-20.

Hamar/Þór var ekki á þeim buxunum að hleypa gestunum inn í leikinn í seinni hálfleik en ÍR skoraði aðeins 13 stig á síðustu tuttugu mínútunum á meðan þær sunnlensku röðuðu niður stigunum. Lokatölur urðu 101-33.

Allir leikmenn Hamars/Þórs komust á blað í leiknum og bandaríski leikmaðurinn Aniya Thomas spilaði aðeins 12 mínútur í dag. Emma Hrönn Hákonardóttir var stigahæst með 22 stig, Anna Katrín Víðisdóttir og Þóra Auðunsdóttir skoruðu 14 og Anna Katrín sendi 5 stoðsendingar að auki. Eva Margrét Þráinsdóttir skoraði 13 stig og Jóhanna Ágústsdóttir skoraði 12. Stefanía Ólafsdóttir var frákastahæst með 14 fráköst og Kristrún Ríkey Ólafsdóttir tók 10 fráköst.

Fyrri greinSigur í fyrsta heimaleiknum
Næsta greinÖruggt hjá Hamri