Risasigur Þórs á Ísafirði

Þórsarar byrjuðu betur og voru yfir frá fyrstu mínútu en Ísfirðingar önduðu ofan í hálsmálið á þeim undir lok 1. leikhluta þegar þeir breyttu stöðunni úr 14-26 í 25-32.

Þorlákshafnarliðið lét síðan til skarar skríða í 2. leikhluta þegar þeir náðu 6-31 áhlaupi og staðan var orðin 40-68 í hálfleik.

Í upphafi seinni hálfleiks gerði Þórsliðið síðan endanlega út um leikinn en staðan var orðin 48-87 þegar rúmar fjórar mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Munurinn jókst svo enn frekar á lokakaflanum og sigur Þórs var aldrei í hættu.

Þórsliðið var hreint út sagt frábært í þessum leik þar sem allir leikmenn liðsins sýndu sínar bestu hliðar. Ben Smith fór þar fremstur í flokki með 25 stig en Grétar Ingi Erlendsson, Guðmundur Jónsson og Darri Hilmarsson áttu einnig allir prýðisleik. Grétar skoraði 19 stig og tók 9 fráköst, Darri skoraði 18 og stal fimm boltum og Guðmundur skoraði 17 og tók átta fráköst.

Robert Diggs skoraði 14 stig, Baldur Þór Ragnarsson 13, Darrell Flake 11, Emil Karel Einarsson 7 og Þorsteinn Már Ragnarsson 4 en allir níu leikmenn Þórs komust á blað og fengu góðan spiltíma.

Eftir fimm leiki er Þór í 6. sæti deildarinnar með 6 stig en deildin er hnífjöfn þar sem 6 stig skilja að 2. og 11. sætið.