Risaþristar Baldurs kláruðu leikinn

Þórsarar eru búnir að koma sér vel fyrir í efri hluta Iceland Express-deildar karla í körfubolta eftir góðan sigur á Haukum í Þorlákshöfn í gærkvöldi, 82-76.

Leikurinn fór hægt af stað og lítið var skorað í upphafi. Þór komst í 4-0 en þá komu sjö stig í röð hjá Haukum sem voru skrefinu á undan fram eftir 1. leikhluta. Þórsarar jöfnuðu undir lokin og staðan var 17-15 eftir leikhlutann.

Haukar komu sterkari inn í 2. leikhluta og breyttu stöðunni í 17-23 en þá mættu Þórsarar til leiks. Guðmundur Jónsson skoraði sex stig í röð á meðan Haukar skoruðu ekki á sex mínútna kafla. Staðan í hálfleik var 31-31.

Gestirnir komu sterkari inn í seinni hálfleikinn og náðu sex stiga forskoti en þá vöknuðu gestirnir og jöfnuðu 41-41. Þór náði svo fjögurra stiga forskoti fyrir lokaleikhlutann í stöðunni 53-49.

Jafnræði var með liðunum fram eftir síðasta fjórðungnum en Þór náði fimm stiga forskoti þegar um fjórar mínútur lifðu af leiknum. Haukar minnkuðu muninn í eitt stig en þá svaraði Baldur Ragnarsson með tveimur hrikalega stórum þristum í röð og forskotið var komið í sjö stig. Haukarnir brutu mikið í lokin til að stoppa klukkana en Þórsarar fóru ekki á taugum og kláruðu leikinn með sex stiga sigri 82-76.

Matthew Hairston var algjörlega frábær hjá Þórsurum, sérstaklega í seinni hálfleik. Hann skoraði 30 stig, tók 17 fráköst og varði 9 skot. Darrin Govens var slakur framan af en rankaði aðeins við sér í seinni hálfleik með 20 stig og 8 fráköst. Guðmundur Jónsson var mjög góður með 16 stig, 4 fráköst, 6 stoðsendingar og 4 stolna bolta.