Richardson með geggjað framlag í tapleik

Hamar og Gnúpverjar töpuðu leikjum sínum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Hamar fékk Skallagrím í heimsókn en Gnúpverjar sóttu Vestra heim.

Í Hveragerði voru heimamenn sterkari í fyrri hálfleik og leiddu 47-43. Þriðji leikhluti var í járnum en gestirnir áttu þann fjórða með húð og hári og tryggðu sér þar öruggan sigur, 88-100.

Þorgeir Freyr Gíslason var stigahæstur hjá Hamri með 26 stig, Julian Nelson skoraði 24 og Larry Thomas 22.

Á Ísafirði höfðu heimamenn frumkvæðið stærstan hluta leiksins en Gnúpverjar hleyptu Vestramönnum aldrei langt frá sér. Staðan var 54-44 í leikhléi og eftir jafnan síðari hálfleik urðu lokatölur 105-92.

Everage Richardson átti stórleik fyrir Gnúpverja, skoraði 40 stig, tók 9 fráköst og sendi 7 stoðsendingar. Framlagseinkunn hans var 47. Þórir Sigvaldason kom næstur honum með 14 stig.

Hamar er í 6. sæti deildarinnar með 2 stig en Gnúpverjar á botninum án stiga.

Fyrri greinLítið skorað í síðari hálfleik
Næsta greinJökullinn hopaði um 60 metra á milli ára