
Það var frábær stemning á íþróttavellinum á Laugarvatni í dag þegar Uppsveitir tóku á móti Reyni Hellissandi í 5. deild karla í knattspyrnu.
Uppsveitamenn byrjuðu af krafti og Alfonso Porras kom þeim yfir á 10. mínútu. Á eftir fylgdu mörk frá Jose Martinez, Lukas Kvietiok og Magnúsi Skúla Kjartanssyni og staðan var 4-0 í hálfleik.
Martinez bætti fimmta markinu við á 48. mínútu og þegar korter var liðið af seinni hálfleiknum gerðu Uppsveitamenn taktíska skiptingu, sem var í raun lykillinn að því að Sandarar náðu aldrei að svara fyrir sig. Gísli Þór Brynjarsson, einvaldur liðsins í þessum leik, skipti þá reynsluboltunum Gústaf Sæland og markmanninum Þorsteini Haukssyni inná.
Þorsteinn, sem er 39 ára gamall, hélt hreinu í leiknum og varð í dag elsti leikmaðurinn sem leikið hefur fyrir Uppsveitir. Gústaf, sem er nú 3. leikjahæsti leikmaður Uppsveita, átti sömuleiðis frábæra innkomu. Þegar Martinez hafði innsiglað þrennu sína á 66. mínútu skoraði Gústaf glæsilegt mark á 80. mínútu og tryggði Uppsveitum 7-0 sigur.
Eftir tíu umferðir eru Uppsveitir í 7. sæti A-riðils með 13 stig en Reynir er á botninum án stiga.

