Reynslan skilaði ekki sigri

Byrjunarlið Stokkseyrar í dag. Ljósmynd/Stokkseyri

Stokkseyri heimsótti Tindastól á Sauðárkrók í lokaumferð 4. deildar karla í knattspyrnu í dag. Stólarnir reyndust sterkari og sigruðu 5-0.

Leikurinn var markalaus þangað til á 31. mínútu að heimamenn komust yfir og annað mark fylgdi í kjölfarið þremur mínútum síðar. Um miðjan seinni hálfleikinn fékk markvörður Stólanna að líta rauða spjaldið en manni færri efldust Sauðkrækingar og þeir bættu við þremur mörkum á lokakafla leiksins.

Stokkseyringar voru fáliðaðir í norðurferðinni í dag en börðust hetjulega og það voru engir aukvisar í hópnum, Hlynur Kárason, Gunnar Valberg Pétursson og Gunnar Sigfús Jónsson, samtals með 480 KSÍ leiki undir beltinu eftir leik dagsins.

Eyþór Gunnarsson var eini varamaður Stokkseyringa í leiknum og hann þurfti að koma inná strax á 15. mínútu þegar Erling Ævarr Gunnarsson haltraði útaf. Eyþór náði þeim áfanga í dag að spila sinn 100. KSÍ-leik.

Þrátt fyrir skellinn og þá staðreynd að Stokkseyri mun leika í Utandeild KSÍ á næsta ári má áætla að það sé þokkaleg stemning í Stokkseyrarrútunni á leiðinni heim, enda liðið styrkt af Smiðjunni brugghúsi.

Fyrri greinSkýrslu um hönnun Hamarshallarinnar skilað í næstu viku
Næsta greinSelfyssingar héraðsmeistarar – Bryndís Embla tvíbætti Íslandsmet